152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

Hallormsstaðaskóli.

[15:40]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nám í Hallormsstaðaskóla byggir á fræðilegri hagnýtri og aðferðafræðilega þekkingu um nýtingarmöguleika auðlinda og hráefna með sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Nám í sjálfbærni og sköpun er 60 eininga nám á fjórða hæfniþrepi og er kennt sem viðbótarnám við framhaldsskólastig sem samsvarar fyrsta ári á háskólastigi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Námið er viðurkennt af ráðuneyti og birt í Stjórnartíðindum. Skólinn leggur kapp á að fá til sín doktorslærða fagstjóra sem stýra námi skólans ásamt fjölda sérfræðinga sem heimsækja skólann sem koma frá atvinnulífinu, tengjast nýsköpun og sjálfbærni, öðrum háskólum og frumkvöðlum. Skólinn er í sókn og hefur til að mynda bætt við sig sumarstarfi í endurmenntun framhaldsskólakennara auk þess að fá til sín háskólanemendur í rannsóknar- og þróunarverkefni Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Mikilvægt er að geta veitt framhaldsskólakennurum tækifæri á að taka heilsársnám í sjálfbærni og sköpun sem hluta af endurmenntun þeirra, sem er á meistarastigi, með því að veita þeim fræðilega og hagnýta þekkingu á auðlindum og hráefnum í sjálfbærum og skapandi leiðum í kennslu. Fjöldi nemenda sem sýnir námi Hallormsstaðaskóla áhuga hefur þegar lokið grunnnámi í háskóla og vill taka námið sem hluta af meistaranámi; erlendir einstaklingar og frumkvöðlar með ákveðnar viðskiptahugmyndir, enda hefur námið fengið mikla athygli erlendis og nú síðast í gegnum Erasmus-verkefni um „Posthuman Architecture“ við háskólann í Álaborg, háskóla í Slóvakíu, Ítalíu og á Sikiley.

Á sama tíma og Hallormsstaðaskóli sækir fram og sýnir bæði vilja og metnað til að verða háskóli er rekstrarsamningur við skólann óbreyttur frá árinu 2017, sem er skerðing á fjármagni miðað við launahækkanir síðustu ára og almennar hækkanir á hráefni og þjónustu. Því er spurt: Hver og hvernig er tekin ákvörðun um að Hallormsstaðaskóli geti kennt á háskólastigi? (Forseti hringir.) Hvert er ferlið? Hvernig fer matið fram og hvar er ákvörðunin tekin?