152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

um fundarstjórn.

[15:49]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ég hljóma nú kannski eins og rispuð plata að koma hingað upp og kvarta undan því að ráðherrar svari engu í óundirbúnum fyrirspurnatíma. En hér er ég kominn enn á ný að vekja athygli á því að hæstv. félagsmálaráðherra vék sér undan beinum spurningum hv. þm. Sigmars Guðmundssonar varðandi stöðu og velferð barna á flótta, sem heyrir beinlínis undir ráðherrann. Hann vék sér undan því með því að benda á að spurningu um þennan málaflokk ætti bara að vísa til Jóns Gunnarssonar af því að það er búið að afhenda honum lyklana að þessum málaflokki. Og fyrst ég hef smá tíma upp á að hlaupa þá get ég ekki annað en bent á að þrír ráðherrar voru spurðir út í stöðu verndarkerfisins á Grikklandi. Tveir lýstu áhyggjum, Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, og töldu mikilvægt að horfa til aðstæðna og ætluðu ekki að mæla gegn því að aðstæður þar væru slæmar. En ráðherrann sem ber ábyrgð á því að húrra fólki í þetta kerfi sagði að það gengi bara vel fyrir sig á Grikklandi, grískum stjórnvöldum gengi bara ágætlega að afgreiða umsóknir. (Forseti hringir.)

Forseti. Ég hef áhyggjur af þessum málaflokki, sér í lagi núna þegar endursendingarmaskínan er smurð sem aldrei fyrr af hálfu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.