152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

459. mál
[19:59]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í samráðskafla greinargerðarinnar vegna þess að þar kemur fram að alls hafi borist 130 umsagnir, þar af 128 frá einstaklingum en hinar tvær frá Tré lífsins og Bálfarafélagi Íslands. Þetta er ekki alveg rétt vegna þess að einn af þessum 128 einstaklingum skilaði inn umsögn fyrir hönd Siðmenntar. Mér þykir það jaðra við að vera handvömm af hálfu ráðuneytisins að hafa ekki tekið tillit til þeirrar umsagnar. Þar eru efnislegar athugasemdir, ólíkar þeim sem koma fram í hinum 129 umsögnunum, sérstaklega varðandi þann aðskilnað sem verið er að reyna að gera á milli Biskupsstofu og kirkjugarðaráðs. Í umsögn Siðmenntar er, að mér finnst réttilega, bent á að það sé frekar óeðlilegt að fulltrúi Biskupsstofu hafi formennsku í ráðinu ef því er ætlað að þjónusta landið allt. Þetta er arfleifð frá gamalli tíð þar sem félagslegar aðstæður í landinu voru aðrar. Og þar sem hæstv. ráðherra er að færa reikningshald Kirkjugarðasjóðs frá skrifstofu biskups, vegna þess að ráðuneytinu þykir ekki eðlilegt að sú skrifstofa haldi um það reikningshald, af hverju þá ekki að stíga skrefið til fulls eins og lögð er áhersla á í umsögn Siðmenntar með því að biskup hætti að fara með stjórn kirkjugarðaráðs? Kannski fyrst þetta: Hvað var eiginlega að ske hjá ráðuneytinu að fylgjast ekki með þessari umsögn og af hverju ekki að stíga skrefið til fulls varðandi það að skera á aðkomu skrifstofu biskups að kirkjugarðaráði?