Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

meðferð sakamála og fullnusta refsinga.

518. mál
[20:45]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í þessu frumvarpi er verið að auka verulega á réttindi brotaþola í allri aðkomu að málum. Það er samt ákæruvaldsins að keyra málið og þá væntanlega að taka ákvörðun um hvort sakamálinu verði áfrýjað til æðra dómsvalds. En áfram getur brotaþoli fylgt málinu eftir á einkaréttarlegum grunni og er þá skipaður réttargæslumaður fyrir æðri dómi út frá einkaréttarkröfunni. Þannig að ég held að með þessum aukna aðgangi sínum að þessu máli megi reikna með því að brotaþoli hafi mikil áhrif á það hvort málinu er áfrýjað eða ekki með þeim gögnum sem hann hefur lagt fram, fengið rétt hér til að leggja fram og aðkomu hans að málinu. Það styrkir mjög stöðu hans í því að málinu verði áfrýjað. Um leið erum við að gera brotaþola það léttara að fylgja eftir sínum kröfum fyrir æðra dómstigi með þeim breytingum sem hér eru innleiddar.