152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

landamæri.

536. mál
[20:56]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um landamæri. Sérstök lög um landamæri hafa ekki verið sett áður en hugmyndin er þó ekki ný. Á undanförnum árum hafa málefni landamæra tekið örum breytingum og leitt af sér fjölmargar áskoranir, m.a. vegna aukins eftirlits með löglegri umferð um landamæri. Á Schengen-vettvanginum hefur verið lögð áhersla á upplýsingaskipti, nýtingu tækninýjunga og styrkingu landamæraeftirlits, m.a. með því að styrkja fyrirliggjandi upplýsingakerfi Schengen-samstarfsins og kynna ný til sögunnar og efla landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu, Frontex. Þróun hér á landi í málefnum landamæra og landamæraeftirlits hefur tekið mið af stefnu Schengen-samstarfsins og þróun þess enda erum við skuldbundin til þess sem þátttakendur í Schengen-samstarfinu.

Megintilgangur frumvarps til laga um landamæri er að tryggja að landamæravarsla sé framkvæmd með öruggum og skilvirkum hætti og til samræmis við lög, reglugerðir og þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist. Það er bæði hugsað sem þáttur í að tryggja öryggi borgara og samfélags í heild sem og til að treysta löggæslustofnanir. Því er ætlað að skýra ábyrgð, stuðla að samstarfi milli viðeigandi yfirvalda sem fara með málefni tengd landamærum og styðja baráttu gegn glæpum þvert á landamæri, ólöglegum fólksflutningum og ógn við allsherjarreglu og þjóðaröryggi.

Efni frumvarpsins tekur að miklu leyti mið af núgildandi lögum og reglum sem gilda um för einstaklinga yfir landamæri, þá aðallega lögum um útlendinga, reglugerð um för yfir landamæri sem sækja stoð sína til þeirra laga, ásamt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um för fólks yfir landamæri, þ.e. Schengen-landamærareglunum. Þessar meginreglur sem gilda um för einstaklinga yfir landamæri hafa verið skilmerkilega teknar saman í frumvarp þetta til hagræðis fyrir einstaklinga sem lögin taka til, verði frumvarpið að lögum, og þeirra yfirvalda og aðila sem starfa á grundvelli þeirra. Má þar nefna ákvæði um ábyrgð og framkvæmd landamæravörslu, skyldur flutningsaðila og reglur um frjálsa för á innri landamærum nema tímabundið eftirlit hafi verið tekið upp um komu- og brottfarareftirlit á ytri landamærum.

Að sama skapi er lagt til að ákveðin ákvæði í lögum um útlendinga taki breytingum eða falli brott. Með tilkomu frumvarps þessa þykir því rétt að mæla fyrir um landamæravörslu og réttindi og skyldur, bæði íslenskra ríkisborgara og útlendinga við för yfir landamæri í sérstökum lögum um landamæri, enda eiga grunnreglurnar almennt við um alla sem ferðast um eða yfir landamærin, hvort sem þeir eru íslenskir eða erlendir ríkisborgarar. Að því sögðu er óheppilegt að slík ákvæði sé eingöngu að finna í lögum um útlendinga.

Með frumvarpinu er ekki síður stefnt að því að styrkja lagastoðina fyrir reglugerð um för yfir landamæri, setja lagastoð fyrir reglugerðir sem ætla má að þurfi að innleiða á grundvelli laganna, m.a. vegna þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi, og innleiða ákveðin efnisákvæði Schengen-gerða um ný upplýsingakerfi; svokallað komu- og brottfararkerfi EES annars vegar og ferðaupplýsinga- og ferðaheimildarkerfi hins vegar. Stefnt er á að kerfin verði tekin í notkun á öllu Schengen-svæðinu í lok árs 2022 og um mitt ár 2023. Til að það gangi eftir verða öll aðildarríkin að vera tilbúin samtímis fyrir starfrækslu kerfanna, m.a. með viðeigandi mannafla og þjálfun, tengingu fyrirliggjandi landamæra grunnvirkja við kerfin, réttum hug- og tækjabúnaði og lagaumgjörð. Frumvarp þetta er mikilvægur liður í hinu síðastnefnda, en Ísland er skuldbundið til að innleiða þessar gerðir og þar með kerfin á grundvelli Schengen-samstarfsins.

Virðulegur forseti. Ég mun nú fara nánar yfir hvort kerfi um sig en þau munu hafa í för með sér breytingar á landamæraeftirliti hér á landi. Komu- og brottfararkerfið verður sett upp á öllum ytri landamærum Schengen-svæðisins og mun halda rafræna skráningu um komur og brottfarir ríkisborgara þriðju ríkja sem heimilað hefur verið stutt dvöl á Schengen-svæðinu, þ.e. 90 daga á hverju 180 daga tímabili. Kerfunum er einnig ætlað halda skráningu um þá sem hefur verið frávísað á landamærum.

Í framkvæmd verður það svo að við komu ríkisborgara þriðja ríkis um ytri landamæri munu landamærayfirvöld skrá ákveðnar persónuupplýsingar einstaklingsins ásamt andlitsmynd og eftir atvikum fingraför hans í kerfið. Þá verður einnig haldin sérstök komu- og brottfararskráning um viðkomandi. Breyting verður því á núverandi framkvæmd þar sem takmarkaðar persónu- og lífkennaupplýsingar einstaklinga fást í dag með því að skanna vegabréf viðkomandi og þær bornar saman við tiltekna gagnagrunna eins og Schengen-upplýsingakerfið. Þá er í dag engin skráning haldin um komu og brottför einstaklinga inn og út af svæðinu. Komu- og brottfararkerfið mun þannig koma til með að nútímavæða og einfalda landamæraeftirlit, m.a. með því að koma í stað þeirrar skyldu landamæravarða að stimpla vegabréf. Með kerfinu næst einnig samhæfð yfirsýn allra Schengen-ríkjanna yfir þá sem dvelja á Schengen-svæðinu umfram heimilaða dvöl.

Í frumvarpi því sem ég mæli nú fyrir er kveðið á um ábyrgð ríkislögreglustjóra og starfrækslu íslenska hluta kerfisins hér á landi um þær persónu- og lífkennaupplýsingar sem heimilt er að skrá í kerfið, og um aðgangsheimild tilskilinna yfirvalda að því. Ferðaupplýsinga- og ferðaheimildakerfið er hins vegar kerfi sem gerir þá kröfu til ríkisborgara þriðju ríkja sem ekki eru áritunarskyldir að sækja um ferðaheimild áður en þeir ferðast inn á Schengen-svæðið. Margir þekkja sambærilegt ESTA-kerfi í Bandaríkjunum. Með slíkri umsókn verður betur hægt að meta hvort öryggisáhætta, hætta á ólöglegum fólksflutningum eða aukin faraldurshætta stafi af komu þessara ríkisborgara þriðju ríkja innan Schengen-svæðisins. Ítarleg skoðun á heimild ríkisborgara þriðja ríkis sem er undanþeginn áritun við komu inn á Schengen-svæðið fer aðeins fram á ytri landamærum og leiðir til frávísunar ef heimild fyrir komu er ekki til staðar. Ferðaheimild minnkar þannig líkurnar á því að einstaklingar, sem yrði að öllum líkindum vísað frá við komu, ferðist að ytri landamærum Schengen-svæðisins. Útgefin ferðaheimild mun þó ekki veita sjálfkrafa rétt til komu þar sem endanleg ákvörðun verður enn í höndum landamæravarða á landamærum en þá að undangengnu frumeftirliti ferðaheimildakerfisins.

Í frumvarpi þessu er mælt fyrir um skyldu ríkisborgara þriðju ríkja sem falla undir kröfu um ferðaheimild við komu yfir ytri landamæri Íslands, um stofnun landsskrifstofu ferðaheimildakerfisins hér á landi sem öllum aðildarríkjum er skylt að setja á laggirnar og hefur heimild til að veita, synja, afturkalla og/eða ógilda ferðaheimildir, samkvæmt nánari reglum þar um, um kæruheimild vegna slíkra ákvarðana og um ábyrgð og aðgang til skyldra yfirvalda að kerfinu. Þá er einnig mælt fyrir um auknar skyldur flutningsaðila sem flytja farþega um ytri landamæri í tengslum við innleiðingu kerfanna. Eins og með komu- og brottfararkerfið er lagt til að ríkislögreglustjóri beri ábyrgð á íslenska hluta ferðaheimildakerfisins hér á landi og starfrækslu landsskrifstofunnar, en vinna við innleiðingu þessara kerfa sem og rekstrarsamhæfingu þeirra við önnur upplýsingakerfi eins og Schengen-upplýsingakerfið, upplýsingakerfi um vegabréfsáritanir og upplýsingakerfi um fingrafaragrunn fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd hefur átt sér stað um langt skeið og hefur landamæradeild ríkislögreglustjóra verið leiðandi við þá vinnu. Mun þessi breyting og rekstrarsamhæfing kerfanna skipta sköpum við að auka gæði eftirlits innan svæðisins og ekki síður efla sjálfvirknivæðingu landamæraeftirlits.

Virðulegur forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til nefndar og 2. umr.