Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 78. fundur,  9. mars 2023.

greining á samkenndarþreytu og tillögur að úrræðum.

208. mál
[13:30]
Horfa

Flm. (Ingibjörg Isaksen) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Berglindi Hörpu Svavarsdóttur fyrir að koma hérna upp og fjalla um þetta mikilvæga mál og afar mikilvægt einmitt að fá heilbrigðismenntaðan starfsmann hingað upp, þó svo að hún starfi ekki sem hjúkrunarfræðingar í dag eins og hún kom inn á, því þetta sjónarhorn er einmitt svo mikilvægt, að maður fái það frá grasrótinni. Það var einmitt leitað til heilbrigðisstarfsfólks í tengslum við þessa vinnu, hvernig væri hægt að vinna málið þannig að það myndi gagnast sem flestum. Þó svo að vissar stéttir séu taldar upp í þingsályktunartillögunni þá eru auðvitað fleiri sem geta fallið undir hana og í rauninni þetta verkefni. Þá er ég að tala um bráðaliða, sjúkraflutningamenn, björgunarsveitarmenn og enn fleiri eflaust, þannig að þó svo að þeir séu ekki teknir fram þarna í þessari tillögu þá eru eflaust fleiri sem gætu nýtt sér þetta.

Mér fannst einmitt mjög áhugavert það sem hv. þingmaður kom inn á en er atriði sem ætti samt sem áður ekki að koma á óvart, þ.e. að mesta kulnunin mælist hjá ungum hjúkrunarfræðingum. Kulnun og samkenndarþreyta tengist ekkert alltaf eingöngu vinnunni, það er auðvitað líka oft álag utan vinnutímans hjá okkur eins og hv. þingmaður kom inn á. Það er mikið álag í vinnunni og það er líka mikið álag heima, fólk er jafnvel að ala upp börn og eignast sitt fyrsta húsnæði þannig að það er að mörgu að huga. Sumir eru einmitt móttækilegri fyrir samkenndarþreytu en aðrir þannig að þetta eru samverkandi þættir.

En ég vil bara þakka hv. þingmanni. Ég hef ekki neina beina spurningu til hennar, mig langaði bara að þakka henni fyrir hennar innlegg.