Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 78. fundur,  9. mars 2023.

almannatryggingar.

217. mál
[13:59]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir að flytja þetta góða réttlætismál hér á Alþingi og ég er stoltur af því að vera einn af meðflutningsmönnunum. Nú er það þannig að almenna tryggingakerfið okkar stenst ekki þær kröfur sem við hljótum að gera í velferðarþjóðfélagi á 21. öld og það er einfaldlega staðreynd að kjör þeirra sem reiða sig á þetta kerfi hafa dregist jafnt og þétt aftur úr kjörum á almennum vinnumarkaði. Manneskja með skerta starfsgetu sem fær örorkumat 40 ára, ég var að slá þessu inn í reiknivél TR hérna áðan, hún er með rétt rúmlega 300.000 kr. í ráðstöfunartekjur. Tekjulægstu öryrkjarnir sæta enn þá 65% skerðingu á sérstakri framfærsluuppbót frá fyrstu krónu sem þeir vinna sér inn. Þetta er ekki boðlegt, virðulegur forseti.

Almannatryggingakerfið okkar bregst líka eftirlaunafólki. Þriðjungur eftirlaunafólks er með lægri mánaðartekjur heldur en nemur lágmarkstekjum á vinnumarkaði. Ójöfnuður eldra fólks hefur snaraukist á undanförnum árum meðan ójöfnuður almennt dróst saman. Vandamálið hér er ekki síst það hvernig ríkisstjórnir síðustu ára, stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi, hefur umgengist 69. gr. almannatryggingalaga um að ákvörðun greiðslna almannatrygginga skuli taka mið af launaþróun. Það virðist einhvern veginn hafa verið tilviljunum háð hvaða mælikvarðar eru lagðir til grundvallar og fyrir vikið dragast greiðslurnar samkvæmt lögunum aftur úr launaþróun. Þetta er auðvitað gert í skjóli þess, eins og hv. þingmaður fór ágætlega yfir hérna áðan, að orðalagið í 69. gr. er tiltölulega opið til túlkunar. Hvað þýðir það nákvæmlega að ákvörðun á bótum almannatrygginga skuli taka mið af launaþróun? Í raun hefur fjármálaráðherra hverju sinni og svo Alþingi hér sem staðfestir ákvörðun hans með afgreiðslu fjárlaga haft hálfgert sjálfdæmi um það hvað þetta þýðir og í krafti þessa svigrúms sem ráðherra og þingmeirihlutinn hér hafa hefur í raun verið tekin pólitísk ákvörðun um það ár eftir ár, áratug eftir áratug, að láta fólkið sem reiðir sig á lífeyri dragast aftur úr launaþróun í landinu.

Auðvitað eru ýmsar leiðir færar til að leiðrétta þetta óréttlæti. Ég held að það færi nú bara afskaplega vel á því að beita sömu aðferðafræði og er notuð við útreikning launa hjá þingmönnum og ráðherrum. Þetta er ekki aðferðafræði sem hinir háu herrar og frúr hafa kvartað sérstaklega undan og felur meðal annars í sér leiðréttingu einu sinni á ári. Við í þessum sal erum afskaplega vel varin fyrir verðbólgunni, ólíkt flestum öðrum hópum. Þetta er sú leið sem er lögð til í þessu ágæta frumvarpi og sama leiðin er lögð til í breytingartillögu stjórnarandstöðunnar við frumvarp frá félags- og vinnumarkaðsráðherra sem nú er til umfjöllunar í velferðarnefnd.

Stóra spurningin sem er undir í þessu máli er kannski þessi: Hvers vegna ættu öryrkjar og eftirlaunafólk að þurfa að sætta sig við miklu loðnari viðmið, minni fyrirsjáanleika og ekki bara miklu lakari kjör heldur líka lakari kjarabætur á hverju ári heldur en þingmenn og ráðherrar? Þetta er stóra spurningin sem er undir í þessu máli. Ef ég þekki stjórnarmeirihlutann rétt þá verður þetta góða þingmannamál svæft og steindrepið í nefnd. En þessi sama spurning verður líka undir hér þegar greidd verða atkvæði um breytingartillögu stjórnarandstöðunnar um stjórnarfrumvarp einhvern tímann á næstu vikum. Hvers vegna ætti fólkið sem reiðir sig á almannatryggingakerfið á Íslandi, fátækasta fólkið á Íslandi, hvers vegna ætti þetta fólk að þurfa að reiða sig á miklu óskýrari viðmið um kjörin sín, meiri óvissu, minni hækkanir en yfirstéttin á Íslandi? Þetta er samviskuspurningin sem er undir í þessu máli.

Frú forseti. Þetta er spurningin sem við öll hér í þessum sal þurfum að svara.