131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Uppsagnir hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli.

514. mál
[12:43]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Á Keflavíkurflugvelli hefur orðið mikil fækkun og minnkun á starfsemi. Ef við berum saman hvernig þetta leit út árið 1990 miðað við daginn í dag voru 3.300 hermenn á flugvellinum 1990, 1.450 í dag og íslenskir starfsmenn beint hjá varnarliðinu voru 1.086 árið 1990 en eru 674 í dag.

Þessar tölur sýna svo að ekki verður um villst að þarna hefur verið dregið verulega úr starfsemi og að því er virðist algjörlega einhliða af hálfu Bandaríkjamanna.

Við hljótum að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Á ekki að fara að hefja þessar embættismannaviðræður við Bandaríkjamenn sem áttu að hefjast í janúar miðað við yfirlýsingar sem gefnar voru á þingi um framtíð Keflavíkurflugvallar?

Þegar það svar var gefið var vitað að skipt yrði um utanríkisráðherra í Bandaríkjunum þannig að það er ekki ástæða fyrir því að þessar viðræður hafa dregist. Það hlýtur að vera eitthvað annað. Hvernig í ósköpunum stendur á því að það gengur hvorki né rekur í þessu máli? Er ekki kominn tími til þess að hrista af sér aumingjaskapinn sem blasir við?