131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Riðusmit og varnaraðgerðir gegn riðu.

461. mál
[13:16]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Hin illvíga riðuveiki í sauðfé er þekkt víða um heim en hefur verið þekkt hér í rúm 100 ár. Talið er að hún hafi borist hingað með dönskum hrúti til Skagafjarðar, breiðst síðan út um allt landið og valdið miklum búsifjum og andstreymi meðal sauðfjárbænda auk umtalsverðra fjárútláta af almannafé.

Skipulegar aðgerðir gegn riðuveiki hófust hér á landi árið 1978 og hafa borið umtalsverðan árangur þó að enn sé nokkuð langt í að við séum laus við sjúkdóminn.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í greinargerð Sigurðar Sigurðarsonar, dýralæknis sauðfjársjúkdóma, sem var meðal fylgiskjala með þingsályktunartillögu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar um verndaráætlun fyrir svæði sem eru ósýkt af sauðfjárriðu. Sigurður segir svo, með leyfi forseta:

„Fyrstu einkenni eru breytileg frá degi til dags, meira áberandi suma daga en aðra. Langt getur verið í að einkenni verði stöðug. Því getur þurft að skoða kind á þessu stigi oftar en einu sinni til að vera viss. Sjaldan koma öll einkenni riðuveiki fram í einni og sömu kindinni. Fyrstu einkennin eru mjög breytileg milli bæja og landsvæða, jafnvel milli kinda í sömu hjörð.“

Síðar segir Sigurður, með leyfi forseta:

„Smitefnið er hvorki baktería né veira heldur prótein […] Smitefnið þolir langa suðu og flestar dauðhreinsiaðferðir. Helst er það klór sem vinnur á smitefninu. Engin varnarlyf eru til við riðu, engin lyf til lækninga og engar aðferðir til að leita að smitberum. Riða virðist geta legið í landi árum saman. Ekki er víst enn þá, hvernig sjúkdómurinn lifir í umhverfinu.“

Auk þess eru smitleiðir margar og ekki allar þekktar, t.d. var nýlega sett fram tilgáta um að staðbundnir heymaurar geymdu í sér smitefni og gætu sýkt fjárstofn eftir langan tíma. Tilraunamýs sem sprautaðar voru með lausn af heymaurum frá íslenskum riðubæjum, sem þó höfðu verið fjárlausir mánuðum saman, sýktust. Förgun heyfengs er því meðal mikilvægustu þátta í varnaraðgerðum gegn riðu.

Í morgun barst mér skriflegt svar við fyrirspurn um kostnað vegna riðuveikivarna og þar kemur fram að árlegur kostnaður síðustu fimm árin eru frá tæplega 80 og upp í 120 milljónir. Þessi illvígi sjúkdómur kom í haust upp í Skagafirði á svæði þar sem riðu hafði ekki orðið vart í 18 ár og á Suðurlandi í haust gaus hann upp á nokkrum bæjum. Óvenjumörg tilfelli komu upp á síðasta ári miðað við undanfarin ár. Sú staðreynd varð mér tilefni til að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra eftirfarandi spurninga:

1. Hvaða aðferðir eru notaðar til að koma í veg fyrir endurtekið riðusmit?

2. Eru uppi hugmyndir um að endurskoða núverandi aðferðir við:

a. förgun,

b. forvarnir?

3. Er vitað hve lengi riðuveira getur varðveist í jörð?

4. Hefur komið til álita að brenna hræ og heyfeng þar sem riða hefur komið upp því það er vitað að smitið getur geymst lengi í jörð?