131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Endurheimt votlendis.

532. mál
[13:56]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef ákveðið að beina fyrirspurnum til hæstv. landbúnaðarráðherra sem varða endurheimt votlendis. Þær koma til af því að í síðustu viku átti ég orðastað við hæstv. umhverfisráðherra út af gífurlegri losun koltvísýrings úr framræstum mýrum sem kom fram í rannsóknarverkefni sem unnið hefur verið á vegum Landbúnaðarháskóla ríkisins og niðurstöður liggja nú fyrir.

Ég hef svo sem farið ofan í þetta mál nokkrum sinnum áður, en eins og menn vita var það á þriðja áratug síðustu aldar, í kjölfar jarðræktarlaga sem hér voru sett á Alþingi, sem tímabil stórfelldrar framræslu mýra og votlendissvæða á Íslandi upphófst, mýranna sem nóbelsskáldið hefur kallað öndunarfæri landsins. Þetta var auðvitað gagnrýnt harðlega, upp úr miðri öldinni fór að bera mjög á þessum gagnrýnisröddum. Menn gagnrýndu ekki hvað síst að þetta væri gert með fjárhagslegum tilstyrk frá hinu opinbera og ekki væri ljóst hvort allt það land sem framræst yrði mundi nokkru sinni nýtast sem ræktarland. Auk þess varð mönnum smám saman ljóst að hér var verið að fórna umtalsverðum auðæfum í formi líffræðilegs fjölbreytileika.

En það var ekki einungis til að auka ræktarland sem ráðist var að votlendissvæðunum. Þar hefur líka komið til vegagerð og þéttbýlismyndun auk þess sem virkjanir fallvatna hafa orðið til þess að votlendissvæðum hefur verið sökkt undir miðlunarlón. Í seinni tíð hafa menn svo verið að vakna upp við vondan draum þegar ljóst er að sáralítið er eftir af óröskuðu votlendi á láglendi, t.d. hafa athuganir leitt í ljós að einungis um 3% alls votlendis á Suðurlandi er eftir óraskað og einungis 18% votlendis á Vesturlandi.

Síðan 1996 hefur starfað nefnd á vegum landbúnaðarráðherra sem hefur verið ætlað það verkefni að endurheimta votlendi. Hún hefur átt að gera tillögur um það hvar og með hvaða aðferðum megi gera tilraunir til að endurheimta hluta þess votlendis sem hefur verið þurrkað upp með framræslu.

Mér þykir mikilvægt að fá að heyra frá hæstv. landbúnaðarráðherra hvað líði störfum þessarar nefndar og hversu mikið hafi verið endurheimt af votlendi síðan nefndin hóf störf. Ekki síður væri fróðlegt að fá að vita hversu stór hluti hins endurheimta votlendis er sjálfstætt verkefni, þ.e. tengist ekki mótvægisaðgerðum vegna framkvæmda, t.d. Vegagerðarinnar, Landsvirkjunar eða fleiri sem eru að skemma eða fórna votlendi og þurfa í krafti þess að endurheimta sem endurgreiðslu fyrir það sem fórnað er.

Að lokum spyr ég hæstv. ráðherra hversu mikla fjármuni nefndin hafi haft til ráðstöfunar í beinar aðgerðir til að endurheimta votlendi á þessum tíma. Ég hef ástæðu til að ætla að þar hafi verið skorið við nögl.