131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

519. mál
[14:24]

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda og jafnframt þakka ég svör hæstv. heilbrigðisráðherra. Það sem ég vildi aðeins koma inn í þessa umræðu er að við sjáum loksins eftir langa baráttu að þessi viðbygging við sjúkrahúsið á Selfossi er að verða að raunveruleika.

Ég vil bæta við þeirri spurningu til ráðherra hvort möguleiki sé að sveitarfélagið Árborg hafi forgöngu um það að byggja 3. hæð ofan á þá byggingu sem nú er að rísa sem dvalarheimili. Dvalarrými eru engin til á Selfossi en það er forgöngumál sveitarfélaga að sjá til þess að þau séu til. Húsið er hannað með tilliti til þess að hægt er að byggja eina hæð ofan á það og mig langar að heyra frá ráðherra hvort það sé mögulegt að sveitarfélagið gangi til samninga við heilbrigðisráðuneytið um að nýta þann byggingarkost sem þarna er.