131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Grunnnet fjarskipta.

531. mál
[15:03]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að færa þetta í tal og enn fremur að lýsa yfir ákveðnum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra að hann skuli ekki vera jákvæðari í garð þess að leita að sparnaði. Fram kom í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar að 99% af ljósleiðurunum væru í eigu ríkisins. Hvers vegna ekki að skoða með opnum huga hvort ekki sé hægt að sameina þetta þannig að fyrirtæki hafi jafnan aðgang að þessu? Ég átta mig ekki á því og það gætti ákveðinnar ólundar í garð hugmyndarinnar, hugmyndar sem mundi geta leitt til þess að meira færi í innlenda dagskrárgerð í stað þess að hvert og eitt fyrirtæki væri að byggja upp eigið dreifikerfi.

Hvað varðar grunnnetið er enginn vandi að skilgreina það. (Gripið fram í: Nú!) Það er lítið mál. Það eru þeir þættir sem einokun getur verið um og þeir þættir sem eru grafnir í jörðu. (Gripið fram í.) Það má flækja alla hluti og snúa út úr, en það vefst ekki fyrir þeim sem eru í samkeppni við Símann að skilgreina grunnnetið. Þess vegna finnst mér ótrúlegt að verða vitni að því að hv. þingmenn séu að snúa út úr og þvæla um að enginn viti hvað grunnnetið sé.