131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Þróun íbúðaverðs.

[15:50]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. 90% húsnæðislánin voru eitt af aðalkosningamálum Framsóknarflokksins í síðustu kosningum. Þetta baráttumál varð að veruleika í desember á þinginu. Málið fór til félagsmálanefndar og þar náðist þverpólitísk samstaða um málið. Því var breytt eilítið og það fór í gegn með 45 samhljóða atkvæðum. Stjórnarandstaðan lýsti sig mjög ánægða með málið eins og stjórnarsinnar.

Nú spyrja menn: Af hverju hefur íbúðaverð hækkað? Eins og fram kom hjá hæstv. félagsmálaráðherra eru orsakirnar margar. Kaupmáttur launa hefur hækkað. Bankarnir komu inn á markaðinn í ágúst með 80% lán með engu þaki. 90% lánin komu síðan inn og við bætist kostnaðurinn við byggingarreitina sem hv. málshefjandi gerði að aðalmáli ræðu sinnar. Það er erfitt að segja til um það, virðulegur forseti, hvar aðalorsökin liggur en hún er örugglega blanda af öllu þessu.

Ég fagna því sem fram kom í ræðu hæstv. félagsmálaráðherra, að Rannsóknarsetrið í húsnæðismálum á Bifröst muni kanna þetta mál ofan í kjölinn. Í apríl kemur frá þeim skýrsla sem væntanlega mun leiða sannleikann í ljós.

Ég vil að endingu taka undir þau viðhorf sem hér hafa komið fram, þ.e. að það er ekkert á þessari stundu sem segir að þörf sé á að taka nýjar ákvarðanir varðandi Íbúðalánasjóð. Hann hefur verið mjög mikilvægt tæki fyrir allan almenning hér á landi til að kaupa sér íbúðir, bæði á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Íbúðalánasjóður er vissulega mikið aðhald fyrir bankana. Við vitum ekki hvernig bankarnir munu þróast í framtíðinni, hvort þeir hafi úthald á þessum markaði og hvað muni gerast ef Íbúðalánasjóður fer, hvort bankarnir muni þá halda vöxtum sínum og kvöðum á íbúðalánum. Að mínu mati bendir ekkert til þess að það þurfi að taka neinar ákvarðanir nú varðandi framtíð Íbúðalánasjóðs.