131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Þróun íbúðaverðs.

[15:52]

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hafa verið miklar sveiflur í húsnæðisverði, og þá sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum. Fasteignaverð hefur stórhækkað frá árinu 1998 þegar það lá reyndar mjög lágt.

Á síðustu mánuðum hefur íbúðaverð hækkað svo gríðarlega að gera má ráð fyrir því að stórir hópar, ekki síst ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum, muni lenda utan við húsnæðislánakerfið um langa tíð.

Virðulegi forseti. Ég tel að fara verði vel yfir þennan markað þar sem heildarsýn fáist yfir mismunandi þætti málsins og aðkomu mismunandi aðila, ekki síst aðkomu ríkisvaldsins sem er stór gerandi í þeim breytingum á fasteignamarkaði sem nú hafa skilað svo rosalegri hækkun á fasteignaverði.

Ég fagna þeim yfirlýsingum sem fram komu hjá fjármálaráðherra, að hann hafi þegar samið við Rannsóknarsetrið á Bifröst um slíka athugun og tel að það verði mikilvægt framlag inn í umræðuna á næstu mánuðum.

Það má, virðulegi forseti, rekja hina miklu hækkun fasteignaverðs til yfirlýsinga Framsóknarflokksins um 90% lánin fyrir síðustu kosningar. Þar með voru gefnar yfirlýsingar um gerbreyttar forsendur á þessum markaði, þar sem Íbúðalánasjóður var kominn inn á markað bankanna. Þeir höfðu lánað íbúðakaupendum það sem var umfram 60% veðsetningarhlutfall Íbúðalánasjóðs, höfðu séð um að brúa bilið á milli lána Íbúðalánasjóðs og hátt upp í kaupverð íbúða. (HjÁ: Á okurvöxtum.) Bankarnir komu í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar á húsnæðislánamarkaðinn og buðu lægri vexti og hærra veðhlutfall.

Margir hafa notfært sér þessa stöðu þar sem önnur eins kjör og nú voru ekki í boði þegar Íbúðalánasjóður var einráður á markaði. Það er því skiljanlegt að mikil hreyfing verði á fasteignamarkaði við þessar aðstæður. Hvað hefur þessi ríkisstjórn gert til að sannfæra fólk um að þessir lágu vextir séu varanlegt ástand? Mitt svar við því er: Ekkert. Því er nærtækt að telja að undirliggjandi ástæður þessara miklu hækkana séu þær að fólk treysti ekki stjórnvöldum og treysti því ekki að um varanlegt ástand sé að ræða.