132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Styrkir til sjávarútvegs.

414. mál
[13:57]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Menn reyna að halda því fram að veiðirétturinn, (Gripið fram í.) eins og honum er úthlutað sé í sjálfu sér ríkisstyrkur. Nú skulum við aðeins velta fyrir okkur samhengi þessara hluta.

Útflutningsverðmæti í sjávarútvegi er í kringum 120–140 milljarðar kr. en veltur auðvitað töluvert á því hvernig gengið er skráð hverju sinni. Síðan eru menn hér að veifa tölum um að það sé til einhver ríkisstyrkur hér á landi sem er upp á nærri helminginn af þessari tölu. Menn sjá auðvitað hversu fáránlegur slíkur samanburður er þegar við höfum það í huga að sjávarútvegurinn er í rauninni að standa undir svo stórum hluta af lífskjörum okkar og þrátt fyrir mikla uppbyggingu á öðrum sviðum er sjávarútvegurinn algjörlega ráðandi í útflutningstekjum okkar þjóðar með ríflegan meiri hluta af heildarvöruútflutningstekjum þjóðarinnar. Við sjáum því að þetta getur ekki gengið upp og þetta stenst auðvitað ekki neina rökræna skoðun.

Menn vissulega velta fyrir sér hvort veiðirétturinn sé styrkur og alveg eðlilegt að við tökum þá umræðu. Við skulum þá reyna aðeins að átta okur á því hvernig menn reikna þetta. Það er þannig að eftir því sem veiðarnar eru hagkvæmari, eftir því sem talið er eftirsóknarverðara að taka þátt í þessum veiðum eykst væntanlega kostnaðurinn við kvótana eða sóknareiningarnar — mér finnst miklu eðlilegra að tala um þetta almennt sem sóknareiningar en endilega kvóta. Þá getum við líka velt fyrir okkur, er það þá þannig að í kerfi sem er mjög óhagkvæmt, þar sem lítil eftirsókn er eftir því að komast inn í útveginn verði þessi styrkur sem því nemur minni? Það er ekki hægt að stunda útgerð t.d. frá Bretlandi nema með beinum ríkisstyrkjum. (SigurjÞ: Það er ekki rétt.) Það þýðir einfaldlega að útvegurinn er þá óhagkvæmari og þýðir væntanlega að áhugi manna á að borga fyrir þann rétt með einhverjum hætti verður minni. Þýðir það þá að reikna eigi þennan ríkisstyrk lægri, þá eigi að meta það þannig að ríkisstyrkurinn sé lægri eftir því sem atvinnugreinin er óhagkvæmari og (Forseti hringir.) minni áhugi á því að starfa innan hennar?