132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Ákvörðun loðnukvóta.

525. mál
[15:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég held að þessi umræða sé mjög þörf og hún mætti gjarnan fara fram oftar. Við þurfum að ræða breyttar áherslur í fiskveiðistjórninni, við þurfum að fara að tala meira um vistfræði og hætta að fara hér í ræðustól eins og biluð vélmenni romsandi upp einhverjum ótal tölum sem menn hafa fengið handskrifaðar á blaði sem þeim hefur verið rétt inni á Hafrannsóknastofnun og standa síðan hér og lesa þessar tölur upp og láta síðan eins og þetta sé einhver heilagur sannleikur, þessar tölur sem vísindamenn hafa komist að, tölur um einhverjar stofnstærðir, 400 þús. tonn hér og 500 þús. tonn þar og þannig mætti lengi telja.

Þessi vísindi eru ekkert heilög og þau eru ekkert sérstaklega nákvæm. Ég veit nú ýmislegt um það, sjálfur menntaður í þessum fræðum, og menn eiga ekki að taka þessar tölur jafnhátíðlega og hér virðist vera gert. Það er alveg ótrúlegt hvað sérstaklega þingmenn Sjálfstæðisflokksins og ráðherrar eru miklir kerfiskallar þegar kemur að fiskveiðistjórninni, hvað þeir eru ofboðslega miklir kerfiskallar. Þeir einblína sig blinda á tölur og aftur tölur, trúa þeim öllum eins og nýju neti, halda að þetta sé allt saman heilagur sannleikur sem þeir sjá fyrir framan sig og síðan eru aðgerðirnar eftir því. Það getur ekki farið öðruvísi en illa þegar menn ætla sér að fara að nýta náttúruna með þessum hætti, það getur ekki endað öðruvísi en með skelfingu.

Það sem ég legg til að verði gert er það að menn fari nú að hugsa, beita fyrir sig því sem kallað er heilbrigð skynsemi, svipuð skynsemi og góðir bændur beita fyrir sig. Þeir nota hyggjuvit sitt og treysta því. Að menn fari nú að gera það, en hætti þeim vitleysisgangi sem hér hefur verið stundaður allt of lengi.

Það er mín skoðun, virðulegi forseti, að ekki hafi átt að leyfa loðnuveiðar nú í ár einmitt vegna þeirra vistfræðilegu orsaka sem koma fram í þeim spurningum sem ég hef borið fram hér. Það hefði frekar átt að beina flotanum í aðrar tegundir, til að mynda síld. Það verður mjög góð síldveiðivertíð nú í sumar, góð kolmunnavertíð er fram undan (Forseti hringir.) og á heildina litið hefði það ekki þurft að vera svo mikið högg fyrir þjóðarbúið þó að við hefðum sleppt því að veiða loðnu í ár.