133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

hlutur kvenna í stjórnmálum, tvísköttunarsamningar o.fl.

[13:53]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (ber af sér sakir):

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa mér að bera af mér sakir vegna þess að í gær vakti ég athygli á tvennu sem varðar alzheimersjúklinga. Annars vegar að rýmum í skammtímavistun fyrir þá hefur á tveimur árum fækkað fyrst úr fjórum niður í tvö á Landakoti og síðan niður í eitt. Hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir minntist ekki á það, hvernig þeir hafa fækkað rýmum í skammtímavistuninni á kjörtímabilinu.

Hitt atriðið var að ég lýsti hér erindi sem maki alzheimersjúklings sendi mér vegna þess að verið var að rukka hann fyrir vistina. Þessi maki er undir 67 ára. Ég vildi vekja athygli á þessu. Reyndar er það rétt að Tryggingastofnun lét mig vita rétt áður en ég fór í salinn að þetta hefðu verið mistök, (Heilbrrh.: Í hádeginu.) í hádeginu þegar þingflokksfundurinn var að byrja, það er rétt. Engu að síður spurði ég Tryggingastofnun að því hvort það væru fleiri sem væru að lenda í þessu eftir að hæstv. ráðherra breytti þessari reglugerð. Það vissi hún ekki. (Gripið fram í.) Ég komst ekki að því, ég spurði í gær: Eru margir aðrir? Það var spurning mín: Eru margir aðrir yngri hjúkrunarsjúklingar að fá svona rukkanir? Það var spurning mín í fyrri umræðu, ég komst ekki að aftur. Þannig var það. (Gripið fram í.)

Það er full (Forseti hringir.) ástæða til að vekja athygli á þessu hér í þingsal, að verið sé að rukka fólk og ég vil vekja athygli á því fyrst ég kemst að hér til að bera af mér sakir, að þessi maki alzheimersjúklings verður rukkaður innan skamms um þessar upphæðir þegar viðkomandi sjúklingur verður 67 ára. Ég tel fulla ástæðu til að menn velti því fyrir sér hér í þingsalnum.