136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

útflutningur hvalafurða.

284. mál
[14:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Í þessum fyrirspurnatíma er ekki verið að deila um hvalveiðar eða hvalveiðiákvörðun Einars K. Guðfinnssonar út af fyrir sig, þótt ég þakki þátttöku ágætra hv. þingmanna í umræðunni, heldur er verið að reyna að hefja umræðu um og athugun á því hvernig þessi 200–300 störf, sem hv. þm. Jón Gunnarsson hefur lofað okkur, muni skapast hér strax á vordögum verða til. Upplýsingar sjávarútvegsráðherra um tekjur af langreyðarkjötinu eru þær að við höfum fengið 95 millj. kr. fyrir þessi 63 tonn. Ég hef upplýsingar sem byggja á útreikningum alþjóðadýraverndarsamtakanna IFAW um flutningskostnað við þessi 63 tonn. Þær eru á þá leið að flutningurinn með flugi yfir Norðurpólinn hafi kostað um 900 þús. bandaríkjadala sem jafngildir u.þ.b. 112 millj. ísl. kr. (Gripið fram í.)

Forseti. Jóni Gunnarssyni liggur mikið á að tala og ég vil gjarnan að hann taki þátt í umræðunni ef hægt er að koma því við samkvæmt þingsköpum. Því meira sem Jón Gunnarsson segir um þetta mál, þeim mun fróðari verður landslýður um eðli þess og grundvöll. Þessir útreikningar eru þannig að bara flutningurinn yfir Norðurpólinn með þessi tonn sem seldust í sumar hefur kostað meira en nemur öllum sölutekjum á Japansmarkaði. (Gripið fram í: Það er rangt.) Þá spyr ég: Hvernig má vera að 200–300 störf skapist af atvinnuvegi þar sem kostar 17 millj. kr. meira að flytja 63 tonn en nemur söluverði á markaði í Japan? Er þá eftir að reikna ýmsar aðrar tölur inn í. (Forseti hringir.) Forseti. Ég ítreka það að láta hv. þm. Jón Gunnarsson endilega tala hér sem mest.