140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[17:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sem skipti hér meginmáli sé að það hvernig þjóðin og útgerðin skipta umframhagnaðinum sé það sem á ensku er kallað „happy worries“ eða ánægjulegar áhyggjur. Það viðfangsefni er aðeins á dagskrá á þeim árum þegar útgerðin ekki bara á fyrir öllum sínum rekstrargjöldum, heldur þegar hún hefur fengið fyrir fjármagnskostnaði sínum og fyrir hefðbundinni arðsemi á það eigið fé sem bundið er í fyrirtækinu. Og þegar umframhagnaðinum kemur á þeim árum sem svo vel árar gerir almenningur kröfu um 70% af því sem umfram er. Ég held að það sé betra fyrir útgerðina að vera með gjald sem kemur sterkt inn þegar þær eru komnar í umframhagnað en að vera með föst krónutölugjöld eins og hingað til.