140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[17:48]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kvótakerfið, þ.e. stjórn fiskveiða, eins og það hefur verið undanfarna áratugi hefur borið það með sér að skila arði til þjóðarbúsins í heild. Uppbygging kerfisins hefur lotið þeim lögmálum að afraksturinn af þessari mikilvægu auðlind skili sér sem mest til þjóðarinnar í formi skatta og þeirra tekna sem sjávarútvegurinn hefur skilað þjóðarbúinu.

Þetta er ekki fyrsta tilraun þessarar ríkisstjórnar til að breyta lögum um stjórn fiskveiða og nú virðist þetta frumvarp enn og aftur bera það með sér að litið er á sjávarútveginn sem hít sem hægt er að ganga í til að skattleggja að vild, liggur mér við að segja. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann deili þeim áhyggjum mínum að með þeim kerfisbreytingum sem þarna er verið að leggja til sé gengið býsna langt í því að færa áhættuna af fjárfestingu í sjávarútvegi á herðar einkaaðila en að afraksturinn og hagnaðurinn af því sé nánast eingöngu ríkismegin.

Við skulum nefnilega ekki gleyma því að sjávarútvegurinn lýtur sömu lögmálum og önnur fyrirtæki í landinu, hann borgar skatta og hefur skyldur. Þegar verið er að tala um auðlindarentu umfram það sem eðlilegt er að greiða vegna auðlindarinnar er verið að leggja til verulega skattheimtu á eina atvinnugrein langt umfram aðrar. Mig langar til að heyra hjá virðulegum þingmanni hvaða sjónarmið hann hefur í þessu.