141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég bið hins vegar hv. þingmann að hugsa mjög vandlega um þær væntingar sem hún hefur til þess að útgerð geti treyst á svokallaðan leigupott ríkisins. Ég tel það mjög varhugavert. Það getur verið sýn hv. þingmanns en ég er algjörlega ósammála henni í því. Það er ekkert minni óvissa þar en er í dag, það gefur augaleið. Þetta er frjáls og opinn markaðspottur þó að menn geti bætt við með einhverju handstýrðu frá ráðherra og ég vara menn við að hafa of mikla trú á því.

Í umræðunni í gær sagði annar hv. stjórnarliði: Þetta verður skilyrðislaust að vera algjörlega fyrir utan þræði ráðherrans, opinn, efnislegur markaður. Ég bið hv. þingmann að hugsa um það.

Ég er þeirrar skoðunar að við ættum ekki að ræða aðra hluti hér undir þessum kringumstæðum. Hv. þingmaður nefndi hins vegar ýsuveiðina sem við þekkjum að er orðin mjög bagalegt vandamál nánast hringinn í kringum landið og ég spyr hvort hv. þingmaður geti tekið undir það með mér að það sem helst sé ástæða til að hafa áhyggjur af þessa dagana séu akkúrat markaðsmálin og það sem snýr að úthlutun á ýsukvótanum.