141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[16:18]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður talaði í ræðu sinni meðal annars um kvótaþing og mig langar að spyrja hann um skilning hans á 19. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um ráðstöfun til kvótaþings. Þar kemur fram að í reglugerð skuli heimilt að skilyrða hluta ráðstöfunar við útgerðir sem staðsettar eru á tilteknum landsvæðum sem hallað hefur á. Hvaða hluta er þar verið að tala um? Hvað erum við að tala um hátt hlutfall að mati hv. þingmanns? Ég get ekki ráðið það af greinargerðinni hvað átt er við.

Gert er ráð fyrir því í 2. mgr. 19. gr. að búinn sé til sérstakur sjóður úr þeim tekjum sem aflað er á grundvelli þessarar 19. gr. og að sá sjóður skuli skiptast þannig að ríkið hljóti 40%, sveitarfélög 40% og markaðs- og þróunarsjóður tengdur sjávarútvegi 20%. Síðan er gert ráð fyrir að ráðherra setji á fót nefnd með aðild Samtaka sveitarfélaga og hagsmunaaðila í sjávarútvegi sem geri tillögur um ráðstöfun þessara tekna. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi skoðun á því hvaða sveitarfélög er þarna verið að tala um. Er verið að tala um öll sveitarfélög landsins eða er verið að tala um, eins og einn hv. þingmaður talaði um hér áðan, þau sveitarfélög sem einhverra hluta vegna standa höllum fæti?

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um að það sé hálfeinkennilegt að þessu sé svo úthlutað á grundvelli einhverrar nefndar sem ráðherra setur á fót með aðild Samtaka sveitarfélaga. Ég vil meina að þarna séum við í raun að framselja fjárveitingavaldið sem ég tel að sé samkvæmt lögum hér hjá Alþingi. Ég get ekki skilið þetta betur en svo vegna þess að í greinargerðinni (Forseti hringir.) stendur varðandi bráðabirgðaákvæði V að greinin þarfnist ekki skýringar en hún þarfnast skýringar og ég óska eftir því að hv. þingmaður, geti hann það, útskýri hana betur fyrir mér.