143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[16:35]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér kom hv. þingmaður, fyrrverandi utanríkisráðherra, sem stóð fyrir mikilli herferð til að koma Íslandi í Evrópusambandið sem hraðast. Það átti fyrst að gerast á 18 mánuðum en gefist var upp eftir fjögur ár og höfðu þá ekki enn verið opnaðir kaflar sem skiptu máli, svo Evrópusambandsumræðan komi nú hér við sögu.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að núverandi ríkisstjórn er að innleiða mörg lög, innleiðingar Evrópusambandsins, ESB, vegna EES-samningsins. Það er meðal annars vegna þess að margar af þeim innleiðingum sem til stóð að ganga frá á sl. tveimur þingum, jafnvel þremur, það er verið að leggja málin fram í annað og þriðja sinn oft og tíðum, fyrrverandi ríkisstjórn var oft með laumufarþega í því og þá ekki aðeins skattbreytingar, eins og hv. þingmaður orðaði það, heldur alls óskyld mál.

Hér er aftur á móti nokkuð gagnsætt mál. Hér er gjaldtaka, lágmarksgjaldtaka. Þetta er ekki skattur heldur lágmarksgjaldtaka og hún verður útfærð nánar í reglugerð. Ein af þeim forsendum sem verið að gera, gjaldið til að mynda samkvæmt 1. mgr., svo ég vitni, með leyfi forseta, í kaflann um úrgangsgjald á bls. 3:

„Gjald skv. 1. mgr. má lækka ef umhverfisstjórnun, hönnun, búnaður og starfræksla skips er með þeim hætti að skipstjóri geti sýnt fram á að minni úrgangur verði til um borð. Veita má undanþágu frá greiðslu gjalda skv. 1. mgr. fyrir skip í áætlunarsiglingum …“, eins og við vorum búin að ræða.

Augljóslega er ekki um skatt að ræða heldur gjald sem menn keppast við, bæði þeir sem eru ábyrgir fyrir úrganginum — og það er eðlilegt samkvæmt mengunarbótareglunni. Ég trúi því ekki að hv. þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingar komi hingað og mótmæli því að menn eigi að greiða fyrir þá mengun sem þeir standa fyrir, að koma úrganginum fyrir á viðurkenndan hátt. Ég trúi því ekki að þingmenn fyrrverandi ríkisstjórnarflokka sem hafa staðið hér og galað sig nokkuð hása yfir því að það sé mjög mikilvægt (Forseti hringir.) mótmæli því. Ég trúi því ekki.