144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

þingsályktunartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:19]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi er það rétt sem hv. þingmaður nefndi, það kom fram í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar að hugsanlega kæmi fram tillaga um stöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu. Það hefur líka margoft verið tekið fram að ástæðan fyrir því að orðalagið var með þeim hætti að hugsanlega kæmi fram tillaga var sú að menn sáu ástæðu til að meta stöðu þessa máls í ljósi alls þess sem gerst hefur frá því að tillaga var lögð fram síðast. Hluti af þeirri vinnu fólst í samskiptum við Evrópusambandið á síðustu vikum og út úr þeim samskiptum kom niðurstaða sem er auðvitað, þegar öllu er á botninn hvolft, hin augljósa besta niðurstaða í málinu, þ.e. að ljúka þessu á sem jákvæðastan hátt gagnvart Evrópusambandinu, ef svo má segja, gera þetta í góðu. Það eina sem vantaði var að ríkisstjórnin gerði grein fyrir afstöðu sinni til málsins, hvort hún vildi taka upp stefnu síðustu ríkisstjórnar og halda áfram þar sem frá var horfið í þessu umsóknarferli eða ekki. Það er ekki vilji þessarar ríkisstjórnar að ganga í Evrópusambandið og þar af leiðir að Ísland getur ekki á sama tíma verið umsóknarríki. Það að vera umsóknarríki um aðild að Evrópusambandinu felur í sér yfirlýsingu um vilja til að ganga þar inn.

Hvað varðar fyrirspurn hv. þingmanns um afstöðu mína til þingsályktunartillagna og þingsályktana hef ég ekki heyrt marga, varla nokkurn utan flokks hv. þingmanns og stjórnarandstöðuflokka hér, halda því fram að þingsályktanir hafi eilífðargildi og bindi allar framtíðarríkisstjórnir. Þingsályktanir eru ályktanir þess Alþingis sem þá situr (Gripið fram í.) og menn geta með þeim beint (Gripið fram í: … ósammála.) ákveðnum skilaboðum til þeirrar ríkisstjórnar sem situr í umboði þess.

Hins vegar má rifja upp að jafnvel með þá þingsályktunartillögu á bakinu, ef svo má segja, lýsti síðasta ríkisstjórn því yfir að hún setti ýmis skilyrði fyrir því (Forseti hringir.) að leggja fram þessa umsókn, m.a. það að hún mætti draga hana til baka á hvaða stigi málsins sem er.