144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsályktana.

[15:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé algjör óþarfi að æsa sig upp úr öllum skörðum í þessari umræðu. Ég held að í grunninn séu allir þingmenn þeirrar skoðunar að við vinnum á grundvelli þeirra ályktana sem þingið samþykkir. Svo koma upp aðstæður og tilfelli þar sem það er í rauninni ógjörningur, pólitískt, að framfylgja þeim ályktunum sem samþykktar hafa verið eins og í þessu tilfelli. (Gripið fram í.) Ég hefði álitið að menn mundu virða það.

Það var gerð tilraun til þess, af því að hér er gripið fram í fyrir mér, að koma þeim vilja fram. Það gekk ekki af einhverjum ástæðum (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Það eru full færi fyrir hv. þingmann að koma hér í ræðu eftir ræðu. Ég hefði talið að hluti af þessari umræðu, sem við ættum að reyna að komast út úr, væri að gefa ræðumönnum frið til þess að flytja sitt mál. Það er komið nóg af upphrópunum í þessum sal.