149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[14:29]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra kærlega fyrir andsvarið. Það er vissulega rétt að þessi dómur, skilaboðin frá Strassborg, var fordæmalaus að því leyti að ég held að það sé algjörlega fordæmalaust í sögunni að heilt dómstig fari í viðlíka uppnám og átti sér stað hér á Íslandi og er á Íslandi eftir gjörðir fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem hún ber algjörlega ábyrgð á. Það verður ekki frá henni tekið. Hún fór gegn ráðleggingum allra sérfræðinga sem komu að málinu, fór gegn ráðleggingum ráðuneytisstjórans.

En þetta er ekki fordæmalaust að því leyti að Evrópudómstóllinn og EFTA-dómstóllinn hafa áður verið að benda ríkjum eins og Póllandi og Ungverjalandi á að framkvæmdarvaldið geti ekki gripið inn í þegar kemur að skipun dómsvaldsins, eins og gerðist hér á landi. (Forseti hringir.) Ég held því að við þurfum öll að koma saman núna og einblína ekki á minnihlutaálit, eins og kom pínulítið fram í orðum hæstv. forsætisráðherra, (Forseti hringir.) ekki horfa á neitt „hvað ef“ og „hefði“, heldur fara í verkið núna. (Forseti hringir.) Við í Samfylkingunni munum (Forseti hringir.) svo sannarlega ekki liggja á liði okkar þegar kemur að endurreisn (Forseti hringir.) dómskerfisins á Íslandi.

(Forseti (SJS): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)