149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[14:31]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, minnihlutaálit og „hvað ef“ og „hefði“. Ég er þeirrar gerðar að mér finnst það kalla á að stjórnmálin taki það til skoðunar þegar um er að ræða minnihlutaálit, þó að það séu bara tveir sem tefla fram öðrum sjónarmiðum. Ég held að réttarsagan sýni okkur að það er skylda okkar að horfa til þeirra líka. Niðurstaðan er hins vegar alveg klár. Það kom fram í máli mínu. Hana tökum við alvarlega.

Nú er úrlausnarefnið hins vegar hvað muni duga til að mæta þeirri niðurstöðu. Ég fagna því að hv. þingmaður lýsi afstöðu síns flokks. Hvað mun þurfa til til þess að eyða þeirri óvissu? Eins og ég nefndi áðan kann að koma til kasta Alþingis. Þá lít ég svo á að við séum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að við séum reiðubúin til að leysa úr þeim málum með sóma, því að það er auðvitað verkefni okkar þannig að Landsréttur geti orðið starfhæfur á nýjan leik.