149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[14:46]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemd hennar og spurningu. Viðbragðsáætlun stjórnvalda núna gengur að sjálfsögðu út á að rýna dóminn. Eins og ég kom að í upphafi er það svo að þótt margir séu lögfræðingarnir eru skoðanirnar allmismunandi. Það segir okkur að þegar við nálgumst niðurstöðu dómsins hljótum við að horfa til þess að þar voru ýmsar forsendur sem gátu verið mjög ólíkar. Niðurstaðan hefði getað orðið margs konar.

Hversu afgerandi hefði niðurstaðan getað orðið t.d. um hvort þetta ætti við um alla dómara eða bara þá fjóra sem við erum aðeins búin að ræða í dag? Hversu langt yrði gengið? Hversu mikið yrði gert úr vægi Alþingis? Viðbragðsáætlun okkar snýst að sjálfsögðu fyrst og fremst um það hvernig við rýnum þennan dóm og til hvaða aðgerða verði gripið.

Eins og kom fram í máli mínu er þetta líka flókið af því að það snertir þrjár greinar ríkisvaldsins. Þetta snýst ekki aðeins um framkvæmdarvaldið heldur líka um dómstólana sem eðli máls samkvæmt meta eigið hæfi, eins og nú hefur verið gert, sem eðli máls samkvæmt úrskurða um það hvernig eigi að halda áfram í málinu. Það kann hins vegar líka að kalla á inngrip löggjafarvaldsins hvað varðar sérstakar ráðstafanir.

Ég hafði hugsað mér að við dómsmálaráðherra ættum fund með formönnum flokka til að geta farið nánar út í hin tæknilegu atriði sem blasa við okkur og við þurfum að leysa úr á næstu dögum og vikum.

Af því að hv. þingmaður spyr um þær ólíku forsendur sem hafa verið dregnar upp liggur fyrir, og það hef ég sagt, að menn áttu ekki endilega von á því að allir þættirnir yrðu settir saman þannig að þetta yrði túlkað sem gróft brot á 6. gr., sem varð svo niðurstaðan.