150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

fyrirkomulag atkvæðagreiðslu.

[15:02]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Þá er komið að atkvæðagreiðslum og þær fara fram við mjög sérstakar aðstæður. Í ljósi þeirra aðstæðna hefur verið gert samkomulag milli þingflokka, og var það innsiglað á fundi forseta með formönnum þingflokkanna áðan, um að við atkvæðagreiðslurnar nú verði stuðst við heimild í 1. mgr. 80. gr. þingskapa, þar sem segir:

„Þá er forseti hefur ástæðu til að ætla að allir séu á einu máli eða úrslit máls séu ljós fyrir fram má hann lýsa yfir því að gert sé út um atriði án atkvæðagreiðslu ef enginn þingmaður krefst þess að hún fari fram og skal þá sú yfirlýsing forseta koma í stað atkvæðagreiðslu. Um lokaafgreiðslu lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna verður forseti þó að viðhafa atkvæðagreiðslu.“

Í þessu ljósi er ætlunin að haga atkvæðagreiðslum hér á eftir þannig að breytingartillögur og afbrigði verði samþykkt án atkvæðagreiðslu á grundvelli yfirlýsingar forseta sem enginn hreyfir andmælum við, en síðan gangi allar greinar frumvarpanna, svo breyttar, og svo frumvörpin í heild í lokin til venjulegrar atkvæðagreiðslu.