151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

fé til að útrýma sárafátækt.

[13:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það eru of margir sem ná ekki endum saman í íslensku samfélagi, það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. En við höfum verið að styðja betur við bakið á þessum hópum og við höfum gert það með ýmsum hætti. Við getum nefnt sem dæmi 4 milljarða kr. sem við í þessari ríkisstjórn tókum sérstaklega til hliðar í þeim tilgangi á þessu kjörtímabili. Við höfum hækkað um næstum því helming stuðning úr almannatryggingakerfinu á undanförnum tæpum áratug og kaupmáttur bóta hefur aldrei verið hærri en í dag, aldrei. Við höfum aldrei áður varið jafn háum fjárhæðum í þessa málaflokka.

Hv. þingmaður spyr hvort við hefðum kannski — ég skildi hann þannig að við hefðum mögulega átt að nota peningana sem fóru í aðgerðir í þetta frekar eða sækja þá á sama stað. Við tókum lán. Við teljum að með því að gera það séum við að bjarga verðmætum. Ég held að horfa verði til þess að við erum að reka ríkissjóð með geigvænlegum halla og hugmyndir um að afnema allar tekjutengingar, svo að dæmi sé tekið, kosta tugi milljarða. En vandinn er til staðar og ég segi að svarið við þessu undirliggjandi máli, sem hv. þingmaður rekur hér, sé að halda áfram að skapa mikil verðmæti. Kraftmikið atvinnulíf á Íslandi er forsenda þess að við getum stoppað í götin í velferðarkerfinu.