151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

trúnaður um skýrslu.

[14:55]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég var einn af þessum þremur formönnum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé vísar í. Hann talaði um að það hefði ekki verið neitt vandamál við þetta verklag. Mig langar að koma því á framfæri að þegar ríkisendurskoðandi tók t.d. fyrir hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar ákváðum við að fara þá leið að reyna að flýta birtingu þeirrar skýrslu eins mikið og mögulegt var vegna þess að hún varðaði mál sem var til meðferðar í þinginu. Þess vegna var mjög mikilvægt að hún kæmist í umræðuna sem fyrst, að hún kæmist í hendur allra þingmanna, sér í lagi þingmanna velferðarnefndar sem voru að vinna breytingar á akkúrat þeirri löggjöf sem verið var að skoða í samtímaeftirliti Ríkisendurskoðunar. Ég tel líka, í ljósi þess hlutverks sem ríkisendurskoðandi hefur sem trúnaðarmaður Alþingis, að það skjóti skökku við að það sé einungis hluti alþingismanna sem fái afhentar skýrslur ríkisendurskoðanda og það gildi einhvers konar trúnaði gagnvart restinni af þinginu þegar þingnefndir fá þær afhentar, herra forseti. Mér finnst bara fullkomið tækifæri til að endurskoða þessar verklagsreglur núna þannig að allir þingmenn hafi a.m.k. jafnt aðgengi að þessum upplýsingum áður en þær eru gerðar opinberar.