Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er bara hárrétt sem hv. þingmaður segir að það er risastór galli á núverandi kerfi hversu ógagnsætt það er og hversu óöruggir allir verða þegar verið er að gera breytingar sem eiga svo sannarlega að vera til kjarabóta. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt, þótt það hafi verið rætt um það í mörg ár, að okkur takist núna í alvörunni að gera breytingar á kerfinu, að einfalda það til að sérstaklega þau sem þurfa að reiða sig á greiðslur í kerfinu geti áttað sig á hvernig kerfið virkar, en ekki síður að aðrir, sem vinna að því að bæta kerfið, geti verið vissir um að kjarabætur skili sér.

Varðandi hækkunina og hver hún eigi að vera þá held ég að það megi lengi gera betur í því að hækka kjörin til þeirra sem minnst hafa. En ég tel það bara vera ágætlega málefnalegan grunn og mikilvægan að hækka um þau 3% sem hér er gert.