Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:29]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Við fögnum því að sjálfsögðu í Samfylkingunni að stjórnvöld séu loksins að viðurkenna mikilvægi þess að grípa inn í svona ástand. Við í Samfylkingunni höfum talað fyrir aðgerðum sem þessum í marga mánuði og lögðum fram þingsályktunartillögu í mars. Við byrjuðum að ræða þetta í lok janúar, byrjun febrúar til að hvetja stjórnarmeirihlutann til að taka þetta málefni til skoðunar og undirbúnings. Nú liggur hins vegar fyrir að beðið var með þetta mál og undirbúning þess þar til í þessum mánuði. Þess vegna er þetta á hlaupum hérna í dag. Þess vegna hefur ekki átt sér stað almennileg umræða í nefnd um að laga málið betur að hópum sem skildir eru eftir; ungt fólk með há lán, fólk sem var notað sem eftirspurnarkanall til að örva hagkerfið í Covid og skuldsetja sig á brennheitum húsnæðismarkaði, ungt fólk sem margt hvert hafði engra kosta völ því að ástandið á leigumarkaði var og er ólíðandi eða það var einfaldlega í hræðslukasti yfir því að eigið fé þess myndi duga skammt eftir nokkur ár.

Fleira var það líka sem ekki var tími fyrir í vinnslu þessa frumvarps og þinglegri meðferð og stendur mjög líklega ekkert til að sinna þó að mikið sé talað um að það eigi að fylgjast með hlutunum. Ekki hefur verið horft til atvinnuleitenda, líkt og hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson talaði um hér áðan, sem er óskiljanlegt. Þá hefur umræða um þetta frumvarp ekki átt sér stað í samhengi við stóru myndina. Hvað erum við raunverulega að eiga við hérna? Hvers vegna kemur þessi vandi upp? Eru þetta allt saman bara teknókratísk úrlausnarefni en ekki hápólitískur vandi sem endurspeglast hér? Endurspeglar þessi staða ekki einmitt djúpstæðan vanda í kerfunum okkar? Hvernig er hægt að koma í veg fyrir á næstu mánuðum og misserum að við verðum hérna í stöðugum, dýrum skammtímaplástrum? Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að verðbólguspírall skapist hérna? Af hverju er þrýstingur á verðlag? Um þetta þyrfti að ræða, hvers vegna við erum í þessari stöðu. En það gefst ekki tími í það í tengslum við afgreiðslu á þessu máli, enda átti aldrei að gera neitt fyrr en stjórnvöld mundu eftir kjarasamningum í haust, sem eru, að því er virðist, einmitt drifkrafturinn, af því að svona kjarasamningslotur skammtímaloforða hæstv. ríkisstjórna, alla jafnan, eru klassísk viðbragðsstjórnmál, enda er efnahags- og velferðarstefnan ótrúlega óskýr hjá hæstv. ríkisstjórn. Þess vegna er þetta svona erfitt viðureignar. Þess vegna kemur þetta svona seint. Þess vegna er þetta ekki í takt við núverandi kerfi og þess vegna er þetta ekki í samspili við lengri tíma aðgerðir.

Höfum eitt í huga, virðulegi forseti. Við ræðum hér um mótvægisaðgerðir við verðbólgu sem er að miklu leyti sköpuð af stjórnvöldum eins og hún mælist í dag. Þess vegna er áhugavert og nauðsynlegt að velta því upp hvers vegna við erum í þessari stöðu. Það er að miklu leyti húsnæðismarkaðurinn. Það er sérstaklega áhugavert í ljósi þess að stjórnmálamenn hræðast mjög oft róttækar aðgerðir sem knýja fram raunverulegar breytingar í kerfunum okkar, til að mynda á húsnæðismarkaði, af ótta við róttækar afleiðingar. Þetta hefur einmitt verið ástæðan fyrir því að við höfum ekki séð þetta eiga sér stað í málefnum húsnæðis og íbúða frá því að róttækar ákvarðanir voru teknar á sínum tíma um að leggja niður verkamannabústaðakerfið. Engar aðgerðir hafa birst almennilega sem endurstilla í raun húsnæðismarkaðinn í takt við þarfir samfélagsins, í takt við þá sýn að hér erum við að tala um heimili fólks, ekki fjárfestingar. En það sem er merkilegast við þetta allt saman er að ótrúlegustu hlutir sem eru róttækir hafa verið framkvæmdir hér og haft róttækar afleiðingar og fáir í hæstv. ríkisstjórn hafa viljað viðurkenna. Sú ákvörðun að fara í dramatíska og hraða lækkun vaxta til að örva hagkerfið óbeint í gegnum eignamarkaði var stefna þessarar ríkisstjórnar, sú ákvörðun að nota heimili fólks og skuldsetningu ungs fólks sem tæki til að þrýsta upp auði, skapa svokölluð auðsáhrif og þar með örva eftirspurn, eins og hagfræðingarnir tala um. Þetta var róttæk ákvörðun og hún leiddi af sér róttæk áhrif, gríðarlegar eignaverðshækkanir, stórkostlegar hækkanir á húsnæðisverði, sem hefur skapað neyðarástand víða og m.a. þessa umræddu verðbólgu sem við erum að tala um í dag. Hópur ungs fólks, sem er að stíga sín fyrstu skref, sér nú stórkostlega hækkun á greiðslubyrði lána. Hvergi er minnst á þennan hóp í þessu frumvarpi, líkt og hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson og fleiri í minni hlutanum hafa minnst á, þrátt fyrir að þetta sé hópur sem varð einmitt mjög illa fyrir barðinu á róttækum hagstjórnarmistökum stjórnvalda. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, bar fyrir sig, líkt og hæstv. fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, að vanskilahlutfallið væri ekki hátt, það hreyfðist í rauninni ekki. Líkt og ég hef áður komið inn á, og fleiri, er það síðasta sem fólk gerir að koma sér snemma á lífsleiðinni á vanskilaskrá. Þetta er síðasti reikningurinn sem hægt er að greiða. Þetta er ekki mælikvarði á fjárhagslega neyð fólks.

Mig langar í þessu samhengi að minna stjórnarliða á orð hæstv. fjármálaráðherra í aðdraganda kosninga á síðasta kjörtímabili á meðan allt þetta unga fólk var að skuldsetja sig í hrönnum, að vextir yrðu áfram lágir, nú væri komið nýtt ástand. Ábyrgð seðlabankastjóra er líka mikil í þessu máli, hann talaði um breytt vaxtalandslag. Fólk treystir stjórnvöldum. Þetta sama fólk situr núna í súpunni og það er ekki einu sinni minnst á það í þessu frumvarpi. Unga fólkið okkar er hópur sem hefur séð húsnæðisverð hækka margfalt á við ráðstöfunartekjur sínar, mun meira en meðaltalið í landinu. Höfum í huga, virðulegi forseti, að hér hefur átt sér stað 70% hækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna fólks á síðustu 30 árum, sem er mikil hækkun, vissulega. En þessi hækkun hefur verið helmingi minni hjá fólki undir fertugu. Og ef við tökum inn í myndina þróun húsnæðisverðs, sem er stærsti einstaki útgjaldaliðurinn hjá fólki, stærsta einstaka fjárfestingin hjá venjulegu fólki sem kaupir sér eina eign til að búa í vegna þess að það er heimili þeirra, ekki fjárfesting, þá lítur myndin þar allt öðruvísi út því að húsnæðisverð hefur hækkað um fjórðung umfram ráðstöfunartekjur að meðaltali á síðustu 30 árum en um 40% hjá fólki undir fertugu. Þetta eru meira að segja tölur frá því í fyrra. Hér er ekki búið að taka inn í myndina þá gríðarlegu hækkun sem átt hefur sér stað á þessu ári. Í svona ástandi fer að skipta máli hverra manna þú ert. Þarna endurspeglast grunnstefna stjórnvalda. Bæði snýst þetta um möguleika fólks á að komast inn á markaðinn, ungs fólks, og eins staða þessa fólks í dag til að mæta þessari auknu greiðslubyrði ef það kemst inn. Það eru ekki allir með bakland til að fá lánaða tugi þúsunda mánaðarlega til að eiga fyrir þessum vaxtahækkunum, sem vissulega eru nauðsynlegar í verðbólguumhverfi, en þar er ábyrgð stjórnvalda rík að grípa þessa hópa.

Horfum á fleiri úrræði sem hér er þó fjallað um. Húsnæðisbætur eru hækkaðar og því ber auðvitað að fagna. Það sem veldur vonbrigðum er að það er ekkert til staðar í núverandi umhverfi sem kemur í veg fyrir að leiguverð hækki ekki bara til að gleypa þessa hækkun. Þetta minntist hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson líka á. Þetta á sér einna helst stað og er mjög líklegt að eigi sér stað hér á Íslandi vegna þess að leiguverð fylgir að miklu leyti markaðsverði húsnæðis hér á landi, miklu meira en í löndunum í kringum okkur.

Úrræði í húsnæðismálum hafa vissulega verið kynnt af stjórnvöldum, bara núna í síðustu viku, þar sem verið er að tala um uppbyggingu óhagnaðardrifins húsnæðis, sem ber að fagna og við í Samfylkingunni styðjum að sjálfsögðu. En þetta er ekki fjármagnað og það sem stóð til að setja aftur í málaflokkinn var fyrst tekið út í fjármálaáætlun sem hv. fjárlaganefnd er með til umfjöllunar núna og inniheldur ekki fjármögnun fyrir þessi úrræði vegna þess að það þótti ekki tímabært að setja það inn strax. Það fjármagn er heldur ekki nóg til að ná markmiðum stjórnvalda um þessar íbúðir sem á að byggja.

Í húsnæðistillögunum sem ættu að spila við þessi úrræði sem við erum að tala um hér í dag eru engin almennileg úrræði fyrir leigumarkaðinn. Leigubremsan sem samið var um í síðustu kjarasamningum, lífskjarasamningunum, hefur ekki enn þá komið inn í þingið. Hver er trúverðugleiki loforða hæstv. ríkisstjórnar um úrræði inn í næstu kjarasamninga ef þetta er staðan? Eitt er víst, virðulegur forseti, að við í Samfylkingunni munum fylgja fast eftir þeim úrræðum sem birtast hjá ríkisstjórninni, halda þeim til haga, tryggja að þau leiti hingað inn í þingsal og að þau verði afgreidd og fjármögnuð. Þessi staða er aftur afleiðing þess að ekki er hugsað út í heildarmyndina. Það er ekki tími til þess. Ég hvet stjórnvöld, hæstv. ríkisstjórn, til að skoða sérstaklega þennan lið um leigjendur í þeim úrræðum sem nú er verið að undirbúa eins og svo oft rétt fyrir kjarasamninga í þessum húsnæðistillögum sem ættu að vera í samhengi við það frumvarp sem við ræðum hér, í það minnsta til að koma í veg fyrir að það sem við samþykkjum hér í þinginu, hækkun þessara húsnæðisbóta, hafi ekki verið til einskis. Ef tekin hefði verið alvarlega sú staða sem upp er komin, sem er að miklu leyti sjálfsköpuð, hefði verið hægt að rýna þessi mál betur.

Tölum aðeins um aðgerðirnar til að hækka greiðslur almannatrygginga um 3%, sem er í raun stærsta einstaka aðgerðin sem hér er verið að fjalla um. Það er auðvitað frábært að verið sé að gera þetta en þetta er ekki mótvægisaðgerð. Þetta er ekki einskiptisaðgerð sem á að hrósa sér fyrir. Hér er verið að fara að lögum. 69. gr. laga um almannatryggingar sem segir að greiðslurnar eigi að hækka sem nemur launastiginu almennt eða í það minnsta verðbólgu. Hér er verið að ná árstaktinum upp í rúmlega 7%, sem er nákvæmlega spáin hjá Seðlabankanum fyrir árið. Og það segir sitt um hagstjórnina í landinu að grundvallaratriði í lögum um velferðarkerfi okkar sé aðeins fylgt í krísupakka þegar ljóst er að fólk lendir nú í verulegum vandræðum. Auðvitað á hæstv. ríkisstjórn að gera þetta. Virðulegi forseti. Ef fólk hefur áhyggjur af þenslu þá ætti hæstv. ríkisstjórn einmitt að finna út í þessum mótvægisaðgerðum og vera búin að undirbúa aðgerðir á tekjuhliðinni á síðustu mánuðum sem við höfum rætt um þetta mál. Hæstv. ríkisstjórn hefur allt í hendi sér. Hún ræður, virðulegi forseti.

Hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson ræddi hérna áðan tekjuhliðina og m.a. stöðuna í bankakerfinu, af hverju hagnaður bankanna væri jafn mikill og raun ber vitni. Nú er verið að bera fyrir sig bókhaldshreyfingar og segja: Þetta er í rauninni ekki svona mikill hagnaður. Við vorum búin að niðurfæra eignasöfnin. Við færðum þau einfaldlega bara upp aftur og þess vegna er svona mikill hagnaður. Hvers vegna var svigrúm til að færa upp þessi eignasöfn? Það var út af aðgerðum stjórnvalda með skattfé almennings til að tryggja ákveðið mótvægi í kerfinu gagnvart áfallinu og bankarnir njóta góðs af þessu, þeirri miklu arðsemi sem er til staðar. Ríkið studdi fyrirtækin sem eru í viðskiptum við bankana. Markaðurinn er ekki frjálsari en svo. Flýting lækkunar bankaskatts, sem var pólitísk ákvörðun sem var tekin hér í Covid, átti með óbeinum hætti, líkt og vaxtalækkanir, að styðja við lánveitingar til fyrirtækja. En bankarnir gerðu það ekki. Þeir gerðu það sem hentar þeim enda einkafyrirtæki, þeir skoða sínar áhættubækur og það lá fyrir að þetta myndi allt saman leita í steypu. Svona óbeinar aðgerðir eru ómarkvissar og dýrar. Svona aðgerðir eru þensluhvetjandi og þetta er val stjórnvalda. Þetta er val embættismanna sem er gefið ákveðið vald út frá því að hæstv. ríkisstjórn hafði ekki kjark til að fara í aðgerðir strax, hratt og örugglega.

Ég ætla að fá að ítreka það sem ég sagði í 1. umr. þessa máls. Markmið stjórnvalda er ekki að ná jafnvægi í ríkisfjármálum, eins og heyrist svo oft víða, núna þvert á ríkisstjórnarflokkana. Markmið stjórnvalda er að þjónusta íbúa landsins og vernda samfélagið, hvernig við náum því markmiði með hætti sem er sjálfbær og stuðlar að efnahagslegu jafnvægi, snýr að tækjum og tólum, vaxtastigi, gjöldum og skattlagningu. Það þarf að beita þeim tækjum og tólum sem til eru til að ná höfuðmarkmiði stjórnvalda um að þjónusta almenning. Það er stjórnvalda, hæstv. ríkisstjórnar, að finna út úr því hvernig er hægt að styðja við viðkvæma hópa á hátt sem er efnahagslega skynsamlegur. Hæstv. ríkisstjórn getur gert það sem hún vill. Þetta snýst um forgangsröðun og það er hægt að forgangsraða öðruvísi ef vilji er til að skoða tekjuhliðina á ríkissjóði og önnur útgjöld. Um þetta snýst pólitík. Það er ekki þannig að það sé bara ein lausn til staðar og hún er reiknuð út af embættismanni. Það er eitt að styðjast við gögn og upplýsingar og taka upplýstar ákvarðanir. Annað er að firra sig ábyrgð á pólitískum ákvörðunum með því að stilla hlutunum sífellt þannig upp að hendur stjórnvalda, hæstv. ráðherra, sem kenna sig við félagshyggjupólitík, séu einfaldlega bundnar af einhverjum óskilgreindum, teknókratískum ramma. Þetta er hápólitísk forgangsröðun. Þetta er ekki hlutlaus ákvörðun.

Það verður líka að íhuga, virðulegi forseti, þ.e. hver staðan verður í haust eftir enn frekari verðbólguskot sem stefnir í og eftir að vaxtabyrðin hefur raunverulega þyngst, eins og stefnir í. Og við vitum öll hér inni að vaxtahækkanir sem höfum séð eru aðeins byrjunin á þessu vaxtahækkunarferli. Þetta snýst nefnilega ekki um kostnaðinn við aðgerðirnar núna og svo ef við slepptum þeim bara í óbreyttum heimi — nei, samfélagið er dýnamískt þar sem það stjórnvöld gera nú, það sem hæstv. ríkisstjórn gerir nú, hefur áhrif á þrýsting og óánægju í haust. Þannig eiga þau að hugsa.

Virðulegi forseti. Þessi tilviljanakennda efnahags- og velferðarstefna er dýr. Hún er gríðarlega kostnaðarsöm og útgangspunkturinn er einfaldlega rangur. Það þarf að endurstilla tólin og tækin okkar til að ná markmiðum okkar um gott samfélag hér ef ástandið kallar á það. Það á ekki að gefa afslátt af grunngildum stjórnmálaflokka nema þetta endurspegli raunverulega skoðun þeirra flokka sem þessa ríkisstjórn mynda um velferðarsamfélagið okkar. Það gæti svo sem verið. Og misskilningur okkar sem erum velferðarsinnuð hér í minni hlutanum um hver ræður raunverulega í hæstv. ríkisstjórn byggir kannski á því að flokkarnir hljóti að vera innbyrðis ósammála, en ég er reyndar farin að hallast að að sú sé ekki raunin.

Hæstv. ríkisstjórn hefur val, virðulegi forseti. Forgangsröðunin er þeirra, pólitískar ákvarðanir eru ákvarðanir allra hæstv. ráðherra í þessari ríkisstjórn. Það er ekki rétt að það sem kemur fram í þessum tillögum sem við ræðum í dag sé það eina í stöðunni, sem er efnahagslega skynsamlegt. Þetta er þeirra forgangsröðun.

Að því sögðu þá styðjum við í Samfylkingunni að sjálfsögðu það sem hér hefur verið gert. Það er ekki annað hægt þótt við vildum að aðdragandinn og vinnslan og umfang málsins væru öðruvísi.