Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu mikið og það hefur margt gott komið fram frá stjórnarandstöðuþingmönnum og félögum mínum í Samfylkingunni. En þó finnst mér mikilvægt að taka það fram að jafnvel þótt við styðjum þessar aðgerðir þá eru þær allt of seint fram komnar. Við horfum á velferðarsamfélögin hér í hinum norrænu ríkjunum sem fyrir löngu hafa brugðist við að mörgu leyti svipuðum aðstæðum þótt þær séu ekki nákvæmlega eins, en það sem er að koma núna frá hæstv. ríkisstjórnin er of lítið og það kemur of seint fram. En auðvitað munum við ekki leggjast gegn þessari tillögu því að þeir sem þurfa á þessu að halda og þeir sem verst standa í samfélaginu fagna því auðvitað að fá einhverja bót. En það hefði mátt gera svo mikið betur, forseti, vegna þess að við vitum nákvæmlega hvaða hópar það eru í samfélaginu sem standa verst, sem ekki mega við því að fá þennan aukakostnað sem dynur yfir þegar verðbólgan fer af stað. Þetta eru þeir sem þurfa að treysta á almannatryggingar. Þetta eru einstæðar mæður og barnafólk á lágum tekjum. Þetta eru leigjendur og þetta er atvinnulaust fólk.

Ég hef heyrt hv. stjórnarliða segja hér að það sé bara stuttur tími og það sé ekki tími til að græja og gera. Það hefði mátt gera þetta svo mikið betur. Við þekkjum hvernig kjaragliðnunin hefur t.d. orðið á almannatryggingunum og ég tek heils hugar undir tillögu frá Flokki fólksins þar sem hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson fer fyrir breytingartillögu um hækkun frá áramótum á almannatryggingunum, á örorkulífeyri og ellilífeyri. Ef við skoðum tölurnar um kjaragliðnunina þá var það þannig að greiðslurnar, grunnlífeyririnn var á pari við lágmarkslaun á árinu 2009, þ.e. einstaklingar, hvort sem þeir voru í sambúð eða ekki, náðu lágmarkslaunum, en þeir sem fengu félagslega þjónustu voru 15% yfir þeim. Þannig var staðan 2009. Staðan núna er sú að einstaklingur sem er í sambúð fær ekki nema 76% af lágmarkslaunum og það er eftir þessa 3% hækkun sem verið er að tala um í dag. Og sá sem býr einn og fær þá félagslegan stuðning er rétt með 95% af lágmarkslaunum. Mér finnst augljóst að það þarf að taka skref til að bæta þessa stöðu. Þetta fólk getur ekki tekið við fleiri óvæntum áföllum, sem fylgja hækkandi húsaleigu, matarverði og öllu því sem við þekkjum að fylgir hærri verðbólgu. Þetta er augljóst mál. Við eigum kerfin og það er einfalt mál að koma með breytingartillögu til að laga þetta. Ég vona á stjórnarliðar muni styðja tillöguna sem hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson fer fyrir um hækkun á almannatryggingum afturvirkt til 1. janúar 2022.

Hvað hefur gerst á því tímabili sem þessi ríkisstjórn hefur starfað? Árið 2017 var einstaklingur í sambúð með 82% af lágmarkslaunum og sá sem fékk félagsleg aðstoð, sem bjó einn, var á pari við lágmarkslaun þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við. En síðan hafa allar súlur farið niður, í neikvæða átt, því miður, og eins og ég sagði áður er staðan nú þannig að þessi 82% eru komin niður í 76% og þeir sem njóta félagslegrar aðstoðar vegna þess að þeir búa einir ná aðeins 95% af lágmarkslaunum. Þetta er óréttlæti, herra forseti, sem við verðum að leiðrétta. Það hefði verið tækifæri til þess að gera það hér í dag, taka eitthvert skref til að bæta stöðu þessa fólks sem augljóslega er haldið í fátæktargildru og bæði skattkerfið og almannatryggingakerfið vinna gegn fólkinu í þessum efnum.

Síðan eru það barnabæturnar. Hér er verið að tala um einskiptisaðgerð, sem eru 20.000 kr. sem greiddar eru út 1. júlí. Það er gott og blessað og þar sem við vitum að einn hópurinn sem líklegastur er til að búa í fátækt við eða við fátæktarmörk, og þar undir eru einstæðir foreldrar, hefðum við einnig átt að leggja til að barnabæturnar yrðu hækkaðar þannig að þeir sem njóta óskertra barnabóta fengju hærri greiðslur til að gæta að hag barna sinna í hverjum mánuði það sem eftir lifir af þessu ári. Það er líka einföld tillaga þar sem fjármunum er beint sérstaklega að þeim sem verst standa, þá einstæðum foreldrum og foreldrum með lágar tekjur.

Og síðan eru það leigjendurnir, forseti. Það hefur auðvitað komið fram í umræðunni núna undanfarið, sem Leigjendasamtökin hafa náð svo ágætlega að koma á framfæri, að það er ekkert eðlilegt við íslenskan leigumarkað. Réttarstaða leigjenda er veik og það er sjálftaka í kerfinu. Það eru margir sem búa við það núna að leiguverð hækkar bara sjálfkrafa með verðbólgunni í hverjum mánuði. Leigjendur eru þarna í veikri stöðu en það er leigusalinn sem hefur öll völd. Það er vegna þess að það er ekkert regluverk sem gætir að leigjendum og verndar þeirra hag og heimilisöryggi.

Núna er til vinnslu í þinginu frumvarp og við héldum þegar það kom inn að efna ætti þau loforð sem gefin voru við lífskjarasamninginn; að það ætti að setja á einhverja leigubremsu, að það ætti að sjá til þess að það væri ekki taumlaus hækkun á leiguverði bara að geðþótta leigusala og að gæta ætti að heimilisöryggi þeirra sem eru á leigumarkaði. En svo er ekki, forseti, heldur er verið að tala um söfnun upplýsinga og eftirlit í þessu frumvarpi sem núna er til vinnslu í velferðarnefnd og hvergi er minnst á leigubremsu eða leiguþak. Þetta eru mikil vonbrigði og þetta eru svik við lífskjarasamninginn, þau loforð og þær yfirlýsingar stjórnvalda sem gefnar voru við gerð þess samnings. En þarna hefði sannarlega þurft að gera betur. Ég nefni þetta hér bara til að undirstrika það að stjórnvöld koma ekki til móts við veiku hópana í samfélaginu eða þá sem veikast standa í samfélaginu og eiga erfiðast með að glíma við verðbólguna og efnahagsástandið eins og það er núna. Og þau svíkja meira að segja yfirlýsingar sínar vegna lífskjarasamningsins.

Þá eru það að lokum þeir sem eru atvinnulausir og eiga ekki að fá neitt í þessari umferð, sem mér finnst algerlega óskiljanlegt. Í apríl var atvinnuleysið 4,5% á Íslandi. Þá voru um 9.000 manns atvinnulausir. En mest er atvinnuleysið á Suðurnesjum þar sem atvinnulausir karlar eru 7% og atvinnulausar konur 8,6% af fólki á vinnumarkaði á Suðurnesjum. Þarna fór atvinnuleysið upp í 25%, fjórði hver maður gekk þar atvinnulaus þegar heimsfaraldurinn gekk hér yfir, en sem betur fer er þetta nást niður. En stór hluti af þessum 9.000 sem nú eru atvinnulausir hafa verið atvinnulausir lengur en í sex mánuði, tæplega 5.000 manns. Þetta er fólk sem hefur þurft að glíma við sérstaklega erfiðar aðstæður og við þekkjum það sem hér erum inni hvaða alvarlegu aukaverkanir fylgja langtímaatvinnuleysi. Þær eru auðvitað ekki bara fjárhagslegar en þær eru líka fjárhagslegar og þær eru félagslegar og heilsufarslegar. En þennan hóp á að skilja eftir. Hæstv. ríkisstjórn finnst ekki taka því að rétta þeim hjálparhönd í þessari stöðu. Það eru mikil vonbrigði en það er tækifæri til þess að leiðrétta þann kúrs með því að samþykkja breytingartillögu minni hlutans í þeim efnum.

Forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Mér fannst mikilvægt að rifja það upp að við hér inni, ríkisstjórnin og hv. þingmenn, þekkjum hvaða hópur það er sem stendur veikast fyrir þegar slíkar breytingar verða á efnahagsumhverfinu eins og það er og við hefðum átt að beina öllum okkar styrk þangað. Það sem hæstv. ríkisstjórn gerir er pínulítið, skilur samt ákveðinn hóp eftir út undan og gerir ekki nægilega vel. Því að það er ekki þannig að það sé t.d. hægt að rétta stöðu barnafólks með eingreiðslu upp á 20.000 kr. í júlí. Það þarf að gera mun betur og það þarf að sjá til þess og gæta að hag barna út allt árið, barnafólks sem þarf að draga saman seglin þegar matarverð og húsaleiga fara upp úr hæstu hæðum o.s.frv., eins og við þekkjum.