Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[17:49]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði styðjum þetta frumvarp um mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu. Í fyrsta lagi er verið að greiða út sérstakan barnabótaauka, í öðru lagi hækka bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar um 3% frá 1. júní og að lokum hækkun á húsnæðisbótum og frítekjumörkum húsnæðisbóta að auki. Þá styðjum við breytingartillögur meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Hér er tekið fram að Tryggingastofnun hafi heimild eða hafi frest til að greiða út bætur fyrir 1. júlí næstkomandi. Á fundum nefndarinnar kom það skýrt fram að vilji sé til og stefnt sé að því að greiða hækkanirnar svo fljótt sem auðið er og vil ég nota tækifærið hér og ítreka mikilvægi þess að greiðslunum verði flýtt eins og mögulegt er.