153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

kostnaður við lögfræðiráðgjöf vegna sölu ríkiseigna.

[15:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er Alþingi sem setur lög um þetta félag. Það er algerlega fráleitt að halda því fram að það sé gert beinlínis í þeim tilgangi að fela einhvern kostnað. Þetta fyrirtæki, þetta félag, hefur verið með opna heimasíðu, lindarhvolleignir.is. Þar hefur reglulega verið gerð grein fyrir því hvað hefur verið að gerast á vettvangi félagsins. Það sem menn eru hér að tala um sem lögfræðikostnað er í raun og veru rekstrarkostnaður félagsins sem að öðru leyti hafði engan starfsmann en stjórnin ákvað að vera með lögmann að störfum fyrir sig sem fékk greitt eftir vinnuframlagi og gerði að sjálfsögðu stjórninni grein fyrir því eins og vænta má. Það er enginn að reyna að fela neitt. Menn geta hins vegar haft skoðanir á því hvort reikningarnir séu háir eða óeðlilegir að einhverju marki. Ég segi bara varðandi það markmið sem við vorum að sækjast eftir, (Forseti hringir.) að koma þessum eignum í verð, þá tókst það vel. Við fengum 75 milljörðum kr. umfram væntingar út úr þessu félagi.