153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

orð ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[16:16]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið hér og koma upp sem þingmaður Viðreisnar til að taka undir það sem hér hefur komið fram og benda sérstaklega á þetta samhengi sem kom fram hjá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni. Hæstv. innviðaráðherra og hæstv. fjármálaráðherra eru menn sem fara gjarnan mikinn hér í ræðustól þingsins. Þeir tala hátt, þeir hvessa sig og tala duglega. Þeir eiga því ekkert með það að segja við kvenkyns þingmenn að þær eigi ekki að tala hátt. Þetta er ótrúlega ódýrt ræðubragð. Þetta er eitthvað sem við karlmennirnir tökum kannski ekki eftir. Ég tók eftir mikilli umræðu á samfélagsmiðlum í síðustu viku eftir að hæstv. innviðaráðherra lét þessi orð falla gagnvart formanni Viðreisnar og ímynda mér og að það sama gerist núna eftir að hæstv. fjármálaráðherra talaði svona til formanns Flokks fólksins. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram: Við ættum að láta af þessum ósið, og beini ég orðum mínum þá sérstaklega til þessara tveggja ráðherra.