Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

Björgunargeta Landhelgisgæslunnar.

[16:42]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Það er margt áhugavert í þessari úttekt Ríkisendurskoðunar. Í skýrslunni er fjallað um TF-SIF sérstaklega, að vélin sé mikilvæg á ytri mörkum lögsögu og svo líka hér innan lands. Það er einungis hægt að sinna leit og björgun með flugvélum og skipum, ef við tölum um ytri mörkin. Flugvélin er fullkomin, búin fullkomnum ratsjám og hitamyndavél og það er einnig hægt að varpa björgunarbát til nauðstaddra. Í máli hæstv. ráðherra hefur komið fram að það þurfi að uppfæra búnað flugvélarinnar og ég vil spyrja hann út í kostnað sem mun hljótast af þeirri uppfærslu. En vegna þessa alls þá kom einnig fram í skýrslunni að við komu flugvélarinnar hingað til lands á sínum tíma hafi eftirlits- og björgunargeta Gæslunnar margfaldast. Að því sögðu hefur komið mörgum á óvart, þar á meðal mér, að hæstv. dómsmálaráðherra hygðist hætta rekstri vélarinnar í hagræðingarskyni, að það hefði ekki verið til fjármagn til þess að standa undir rekstri flugvélarinnar. Ég fagna því þó að hæstv. ráðherra hafi fallið frá þessum áformum enda hefði salan verið gríðarleg afturför í vörnum landsins og í starfsemi Landhelgisgæslunnar. Mér finnst mikilvægt að segja það hér að flugmenn Landhelgisgæslunnar hafa verið samningslausir í á fjórða ár og það er mjög svo umhugsunarvert.