Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

Björgunargeta Landhelgisgæslunnar.

[16:46]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að þakka málshefjanda fyrir að óska eftir þessari umræðu sem varðar mikilvægt málefni sem er björgunargeta Landhelgisgæslunnar. Við verðum að gera ráð fyrir því að vilji þingmanna og framkvæmdarvaldsins sé til þess að tryggja með sem öflugustum hætti björgunargetu Landhelgisgæslunnar með þyrlum, flugvélum og skipum á landi og á hafsvæðinu í kringum landið. Á grundvelli þessa hefur verið lagt upp með að þyrlur Landhelgisgæslunnar hafi drægi til að fara 235 sjómílur frá strönd sem eru ystu mörk efnahagslögsögunnar. Þær geta tekið tíu manns um borð og náð til baka inn á strönd. Með því móti er hægt að sinna leit og björgun með þyrlu innan allrar efnahagslögsögunnar. Þar að auki fer Landhelgisgæslan með yfirstjórn leitar og björgunar á skilgreindu leitar- og björgunarsvæði Íslands sem nær yfir 1,9 milljónir ferkílómetra. Einnig sinna björgunarþyrlur Gæslunnar leit, björgun og sjúkraflutningum á landi. Rétt er að geta þess að björgunargeta hér á landi og í kringum landið veiktist töluvert árið 2006 þegar varnarliðið yfirgaf Ísland og þar með líka þyrlu- og björgunarsveit varnarliðsins sem hafði á að skipa fimm öflugum þyrlum. Því er mikilvægt að leita allra leiða til að efla getu og styrk þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar. Hér er rétt að taka upp samtal við nágrannaþjóðir okkar innan Atlantshafsbandalagsins um hvort það sé mögulegt að styrkja samstarf við okkar helstu vinaþjóðir á þessu sviði.

Forseti. Að lokum þetta: Sá sem hér stendur hefur lengi vakið athygli á því að þjónusta þyrludeildar Landhelgisgæslunnar sé mun veikari á austurhluta landsins en á vesturhlutanum. Það er rétt að skoða þegar horft er til framtíðar hvort ekki sé rétt að opna starfsstöð t.d. á Akureyri á vegum Gæslunnar til að efla þyrlurekstur á norður- og austurhluta landsins og á hafsvæðunum norðan og austan við land. Staðsetning og öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar er mikilvægt fyrir starfsemi Gæslunnar og þjóðina alla. Við málshefjandi getum örugglega verið sammála um það, eða hvað?