154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[20:48]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Samkvæmt greinargerð með því frumvarpi sem við erum að ræða hér er markmið frumvarpsins að samræma lög um útlendinga við löggjöf í öðrum Evrópuríkjum, einkum annars staðar á Norðurlöndum. Þá er einnig stefnt að því að auka skilvirkni innan stjórnsýslunnar og tryggja hagræðingu við nýtingu fjármagns. Í greinargerðinni er talað um tilefni og nauðsyn lagasetningar og segir þar að markmið laga um útlendinga sé að tryggja mannúðlega og skilvirka meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga hér á landi. Þá er talað um að sporna þurfi gegn misnotkun á kerfinu og stytta málsmeðferðartíma. Helsta vandamálið við allt þetta sem kemur fram í greinargerð frumvarpsins er að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu stuðla alls ekki að þessum markmiðum.

Þær breytingar sem verið er að gera eru nokkrar og þær eru kannski á heildina litið frekar minni háttar. Ég ætla að leyfa mér að fara yfir þær nokkrar, þær helstu, og útskýra hvernig þær stuðla ekki að þeim markmiðum sem stefnt er að að sögn. Eitt það sem mér hefur þótt erfiðast að skilja tilganginn með, og það þrátt fyrir að hafa spurt hæstv. dómsmálaráðherra um það a.m.k. í tvígang, eru breytingar sem ganga út á að stytta gildistíma dvalarleyfa fólks sem fær hér dvalarleyfi á grundvelli umsóknar um alþjóðlega vernd. Um er að ræða þrjár tegundir dvalarleyfa. Það er í fyrsta lagi staða flóttamanns í samræmi við ákvæði flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Í öðru lagi er svokölluð viðbótarvernd sem veitt er fólki sem er að flýja almennt hættuástand en ekki persónulegar ofsóknir eins og flóttamannasamningurinn gerir ráð fyrir. Í þriðja lagi er það dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þetta eru þær þrjár tegundir dvalarleyfa sem fólk er í rauninni að sækja um þegar það sækir um alþjóðlega vernd.

Í dag fær einstaklingur sem veitt er staða flóttamanns dvalarleyfi til fjögurra ára og óbundið atvinnuleyfi sem þýðir að hann getur unnið við hvað sem hann vill og stofnað fyrirtæki þess vegna. Hið sama gildir um einstakling sem fær hina svokölluðu viðbótarvernd, það er fjögurra ára dvalarleyfi með óbundnu atvinnuleyfi. Einstaklingur sem fær dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða fær dvalarleyfi til eins árs. Hver er breytingin í frumvarpinu? Hún er sú að staða flóttamanns veitir þriggja ára dvalarleyfi, viðbótarvernd tveggja og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða helst í einu ári. Rökin í frumvarpinu eru eingöngu þau að til standi að samræma við reglur á hinum Norðurlöndunum. Þetta vekur upp áhyggjur mínar af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna þess að reglur um þetta eru ekki samræmdar á Norðurlöndunum. Í Danmörku eru það tvö ár, eitt ár og eitt ár, í Noregi eru það þrjú ár, þrjú ár og eitt ár, í Svíþjóð þrjú ár, eitt ár og eitt ár. Í Finnlandi er það eins og á Íslandi, fjögur ár, fjögur ár og eitt ár, og á Íslandi á núna að breyta því í þrjú, tvö og eitt.

Hitt sem er athugavert við þessa breytingu er það að mínu mati að það eru engin önnur rök færð fyrir þessari breytingu. Það er ekkert fjallað um það að sú breyting að stytta gildistíma dvalarleyfa auki skilvirkni í kerfinu, stuðli að styttri málsmeðferðartíma, auki líkur á inngildingu, ekkert slíkt. Þvert á móti er alveg ljóst að með því að stytta gildistíma dvalarleyfa er í fyrsta lagi verið að auka álag á Útlendingastofnun vegna þess að einstaklingur sem í dag fær fjögurra ára dvalarleyfi þarf ekki að sækja um endurnýjun fyrr en eftir fjögur ár en með breytingunni þarf hann sækja um endurnýjun eftir tvö ár. Það má með mjög einföldum útreikningum gera ráð fyrir að álag á Útlendingastofnun við endurnýjun dvalarleyfa muni tvöfaldast með þessari breytingu. Og hver er tilgangurinn? Hann er óljós, samræma við Norðurlöndin sem eru ekki samræmd.

Hitt sem er að sögn ríkisstjórnarinnar og þingmanna meiri hlutans hér einhver heildarsýn sem ríkisstjórnin hafi komið sér saman um í málaflokknum snýst um að auka möguleika fólks á inngildingu í samfélagið. Inngilding felur það í sér að auka möguleika fólks á að verða hluti af samfélaginu, aðstoða það við að finna vinnu, húsnæði og annað, félagslegar tengingar, læra tungumálið og annað slíkt. Ef við reynum að setja okkur í spor einstaklings sem kemur hingað til lands, er að flýja óboðlegar aðstæður í heimaríkinu og honum er veitt dvalarleyfi til fjögurra ára eru talsverðar líkur á því að viðkomandi sjái einhvern akkur í því að læra tungumál svæðisins sem viðkomandi er kominn á. Ef það er stytt í eitt ár — jæja, ég er komin hingað, það tók mig þrjú ár að komast hingað og ég fæ dvalarleyfi til eins árs. Hvar er hvatinn? Hvar er hvatinn fyrir mig til að læra tungumál landsins sem ég er komin til þegar öryggið er ekki meira en þetta? Það er því alveg ljóst að þessi breyting vinnur gegn meintum markmiðum frumvarpsins, enda er eini rökstuðningurinn sá að það eigi að samræma við Norðurlöndin, sem sem fyrr segir eru ekki samræmd.

Annað sem stendur til að gera með þessu frumvarpi, þó að ekki sé jafn langt gengið og ég hefði kannski óttast, er að það er í ákveðnum tilvikum, fyrir ákveðinn hóp, lengdur biðtími eftir möguleikum á fjölskyldusameiningu. Fólk þarf að vera hérna í einhvern ákveðinn tíma áður en það getur óskað eftir því að fá fjölskyldumeðlimi til Íslands, nánar tiltekið maka. Hvaða áhrif hefur það? Þú kemur til nýs lands og þér er veitt móttaka vegna þess í flestum tilvikum að löggjöfin krefst þess og þér er veitt dvalarleyfi til eins árs eða tveggja ára og þú færð ekki maka þinn aftur til þín fyrr en eftir einhvern X tíma. Hvaða áhrif hefur þetta á inngildingu viðkomandi einstaklings? Augljóslega ekki góð. Í leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um farsæla inngildingu er rík áhersla á fjölskyldusameiningu og möguleika á fjölskyldusameiningu vegna þess að það stuðlar að inngildingu, vegna þess að ef fjölskyldan þín er enn einhvers staðar úti í heimi, ertu þá kominn á lokaáfangastað? Það er kannski ekki tilfinningin sem fólk fær. Þær breytingar sem hafa verið gerðar í Evrópu á undanförnum árum, m.a. á sumum Norðurlöndunum, sem lúta að því að skerða möguleika fólks á fjölskyldusameiningu hafa ekki gefið góða raun, þannig að það sem við erum raunverulega að apa upp eftir Norðurlöndunum eru mistök. Við erum ekki að læra af mistökum Norðurlandanna. Við erum að apa þau upp eftir þeim tíu árum síðar.

Aðrar breytingar sem eru gerðar í þessu frumvarpi sem virðast kannski sakleysislegar við fyrstu sýn en eru annars vegar ekki í samræmi við markmið frumvarpsins og skerða réttindi fólks á flótta eru ákveðnar breytingar sem eru gerðar á kærunefnd útlendingamála. Sjálf er ég tiltölulega jákvæð gagnvart t.d. þeirri breytingu að fækka nefndarmönnum þannig að þau séu í fullu starfi. Það held ég að sé jákvæð breyting, svo ég reyni nú að tala vel um einhverja þætti þessa frumvarps hér. Hins vegar er einnig verið að leggja til fyrirkomulag sem ég veit ekki til þess að þekkist neins staðar í stjórnsýslunni á Íslandi. Það er það m.a. að einn nefndarmaður geti úrskurðað í málum og er ansi stór flokkur mála settur þar undir. Þetta veit ég ekki til þess að þekkist neins staðar annars staðar í stjórnsýslunni en við munum kanna það nánar við meðferð málsins hér á þinginu. Þetta vekur auðvitað upp spurningar um tilganginn með því að vera með sjálfstæða kærunefnd yfir höfuð ef það er einn einstaklingur sem tekur ákvörðunina á fyrsta stjórnsýslustigi og einn einstaklingur skipaður af ráðherra, algerlega á grundvelli lágmarkshæfisskilyrða, úrskurðar á æðra stigi.

Svo í ofanálag, með þeim ömurlegu breytingum sem gerðar voru á lögunum síðasta vor og hafa ekki gert neitt annað en að gera kerfið okkar þunglamalegra, ómannúðlegra, óskilvirkara og verra, flóknara, voru möguleikar einstaklinga á því að fá mál sitt endurskoðað skertir verulega. Það má vera að einhverjir þingmenn séu á þeirri skoðun að það sé í lagi að skerða grundvallarréttindi einstaklinga til að ná fram skilvirkni en ég verð bara að hryggja þá þingmenn með því að það er nákvæmlega þannig sem helförin hófst. Það er ekki lengur ómálefnalegt að tala um aðdragandann að því sem gerðist hérna í seinni heimsstyrjöldinni vegna þess að fyrstu skrefin eru þau að einstaklingar séu sviptir réttindum sem við teljum sjálfsögð. Það er ekki verið að svipta fólk neinum lúxus til að tryggja skilvirkni. Það er verið að svipta það grundvallarréttindum til áheyrnar, til andmæla, til að fá ranga ákvörðun leiðrétta. Stærri skref voru tekin í þessa átt í frumvarpinu sem því miður var samþykkt síðasta vor en það á greinilega halda áfram á sömu leið. Enginn nefndarmaður er tilnefndur af mannréttindasamtökum eða öðrum, ég hlakka til að heyra rökin fyrir þessu, og lágmarkskröfur eru til þekkingar þeirra.

Annað sem er athugavert við þessa breytingu, miðað við að þetta á að auka skilvirkni, er að kærunefnd útlendingamála hefur aldrei verið flöskuhálsinn í okkar kerfi. Raunar hefur kærunefnd útlendingamála unnið nokkuð skilvirkt í heildina litið í þessu kerfi. Flöskuhálsinn er hjá Útlendingastofnun en það eru engar breytingar gerðar til þess að auka skilvirkni hjá Útlendingastofnun. Ekkert í þessu frumvarpi er til þess fallið að fækka umsækjendum sem hingað leita svo nokkru nemi. Þorri umsækjenda er enn frá Úkraínu og ekki stendur til að gera neinar breytingar þar. Frumvarpið hefur engin áhrif á þann hóp. Frumvarpið beinist að hópi fólks sem er ekki svo fjölmennur. Ekkert bendir til þess að breytingarnar muni hafa nein teljandi áhrif á það hvort þessir einstaklingar leita hingað eða ekki. Skilaboðin sem breytingarnar senda eru hins vegar neikvæð og það getur haft slæmar afleiðingar fyrir okkar góða samfélag og það gengur gegn markmiðum frumvarpsins og heildarsýn ríkisstjórnarinnar.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. útlendingalaga var sett á sínum tíma til að auka skilvirkni og auka málshraða. Ákvæðið fjallar um umsóknir sem heimilt er að vísa frá vegna þess að annað ríki beri ábyrgð á meðferð málsins á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar eða vegna þess að viðkomandi hafi þegar verið veitt vernd í öðru ríki. Í 2. mgr. 36. gr. útlendingalaga var kveðið á um það að ef einstaklingur hefði sérstök tengsl við Ísland eða ef sérstakar ástæður stæðu til þá bæri íslenskum stjórnvöldum að taka málið til efnismeðferðar. Ástæðan fyrir því að þetta ákvæði hefur valdið svona mikilli tregðu í kerfinu er sú að íslensk stjórnvöld hafa þráast við að beita því og sett einstaklinga í gríðarlega viðkvæmri stöðu í þá stöðu að þurfa að berjast í gegnum allt kerfið og fjölmiðla jafnvel og eigum við mörg dæmi sem ég hef svo sem ekki tíma til að telja upp hér um einstaklinga sem hafa fengið að vera hérna og ég held að ekki nokkurri manneskju myndi detta í hug í dag að væri eðlilegt að senda til baka en þurftu samt að berjast í stað þess að Útlendingastofnun tæki bara þá ákvörðun á fyrstu stigum að segja: Jæja, ókei, þetta eru sérstakar aðstæður. Hér erum við með einstæða konu sem er þunguð og með lítið barn, sérstakar aðstæður, já, sendum hana ekki til Grikklands. Einstaklingur í hjólastól, sendum hann ekki til Grikklands. Nei, þessi ríkisstjórn er reiðubúin að leggja allan tímann, alla peningana og alla fyrirhöfnina í það að reyna að koma fólki í burtu. Það er þess vegna sem þetta ákvæði hefur verið þunglamalegt í meðferð, ekki vegna þess að það sé svo gríðarlegur fjöldi sem er að leita hingað í þessari stöðu. Þetta er reyndar tiltölulega lítill fjöldi þegar á heildina er litið.

Það eru engar lausnir í þessu frumvarpi. Það vinnur gegn öllu sem við eigum að vera að gera og ríkisstjórnin segist ætla að gera. Hvers vegna erum við þá að þessu? Hvers vegna er ríkisstjórnin að þessu? Ég hef velt því fyrir mér sjálf, vegna þess að ég trúi því að við séum öll með það sama í huga, við stefnum öll að því sama, ég trúi því að ríkisstjórnin vilji auka skilvirkni og annað í þessum málaflokki. Hins vegar virðist sem ríkisstjórnin sé bara í einhverri örvæntingu að reyna að gera eitthvað, skilur ekki vandamálið, skilur ekki lausnirnar, ætlar að apa mistökin upp eftir Norðurlöndunum í stað þess að læra af þeim. Ótti og örvænting eru ekki góðir leiðsögumenn.

Í þessari umræðu er enn fremur oft talað um opnun og lokun landamæra eins og þetta snúist um það, hvort við viljum hafa opin eða lokuð landamæri, hvað við viljum taka á móti mörgum og hvað við getum tekið á móti mörgum. Fólk gengur jafnvel svo langt í þessari pontu að nefna einhvern fjölda: Mér finnst að við ættum að geta tekið á móti 50, 60, 500. Vandinn er sá að við stjórnum því ekki hversu margir koma hingað og leita eftir vernd og okkur ber skylda til að veita þeim vernd sem það ber. Landamæri Íslands eru nákvæmlega jafn opin og nákvæmlega jafn lokuð og landamæri annarra Evrópuríkja. Landfræðileg lega mismunandi ríkja hefur sannarlega áhrif á það hverjir koma og hverjir ekki. Íslenskt regluverk sker sig ekkert meira úr heldur en regluverk annarra ríkja. (Forseti hringir.) Hv. þm. Sigmar Guðmundsson fór vel yfir þetta í ræðu sinni hér áðan. (Forseti hringir.) Það er gríðarlegur munur á öllum Evrópuríkjum sem öll hafa sína sérstöðu í kerfi sem þó er nokkuð samræmt og Ísland þar með talið. (Forseti hringir.) Seglarnir á Íslandi eru fyrst og fremst lágt atvinnuleysi og vinalegt samfélag og því ber að fagna og það skulum við ekki eyðileggja.