131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Uppsagnir hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli.

514. mál
[12:42]

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Það er rétt að minna á í þessari umræðu að slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli er alfarið rekið af varnarliðinu og fyrir vikið eru gerðar þar strangari kröfur til slökkviliðs en almennt gerist með borgaralegt slökkvilið. Með minnkandi umsvifum varnarliðsins en um leið aukinni borgaralegri flugumferð, sem mun nema um 70%, er skiljanlegt að upp hafi komið sú ósk frá varnarliðinu að Íslendingar komi í vaxandi mæli í reksturinn.

Ég vil þess vegna velta því til hæstv. utanríkisráðherra hvort hann telji koma til greina að semja beint við Félag slökkviliðsmanna sem rekstrarfélag um þá starfsemi sem slökkviliðið sinnir núna á grundvelli samninga, annars vegar við varnarliðið og hins vegar við ríkisvaldið er það kemur inn. Með því móti má viðhalda ábyrgð og sérþekkingu. Ef einhverjir geta fundið hagkvæma lausn eru það auðvitað þeir sem þar eru. Ég hvet til þess að þetta sé skoðað og verði hraðað því að óvissunni þarf að eyða.