131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Samstarf við Rauða kross Íslands um móttöku flóttamannahópa.

373. mál
[13:12]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er feginn að hæstv. ráðherra leiðrétti þessar dagsetningar. Mér brá svolítið í brún þegar hann sagði að fyrstu niðurstaðna úr rannsóknum á þessu sviði væri að vænta í lok ársins, en þær munu koma í næsta mánuði og það er vel.

Ljóst er að svolítil lausatök hafa verið á þessum málum á undanförnum árum. Eins og fram kom í upphafsorðum mínum hafa menn verið að endurnýja samninga við Rauða krossinn til eins árs í senn. Ég tek eftir því líka varðandi flóttamannaráðið sem upphaflega var skipað 1995 og þá til fjögurra ára í senn, að fram kemur á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins að skipunartími þess hefur einnig verið framlengdur til eins árs.

Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að mikilvægt er að byggja stefnumótun á vitneskju og rannsóknum. Ég fagna því að það skuli gert og vona að þeirri vinnu verðið hraðað.