132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda í prófkjörum.

551. mál
[12:23]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Maður verður alltaf jafn hissa þegar þessi umræða kemur upp hvers vegna í ósköpunum það tekur svona langan tíma fyrir stjórnmálaflokkana að fallast á að birta reikninga sína. Ég get ekki ímyndað mér að þetta þurfi að vera svona flókið. Við í Frjálslynda flokknum höfum birt reikninga okkar allt frá upphafi og ætlum að gera það áfram og vilji einhverjir spyrja nánar út í hvernig þeir eru, eða hvaða greiðslur standa á bak við einstakar fjárhæðir þar, þá er ekkert vandamál að hafa samband við framkvæmdastjóra flokksins og fá þær upplýsingar.

Það er alveg rétt sem kemur fram hér, það er orðið mjög mikið umhugsunarefni þegar maður sér hvað aðgöngumiðinn að þátttöku í stjórnmálum í sveitarstjórnum, borgarstjórn eða hér inni á hinu háa Alþingi, virðist oft og tíðum orðinn dýr. Miklu dýrari en svo að nokkur einstaklingur geti staðið þar á bak við. Það hlýtur að vera sjálfsögð og eðlileg krafa að frambjóðendur sem fara út í dýrar og viðamiklar kosningabaráttur geri jafnframt grein fyrir hvaðan peningarnir koma sem standa þarna að baki.