132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Jafn réttur til tónlistarnáms.

264. mál
[12:40]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Tónlistarnám, tónlistarkennsla er eitt af metnaðarmálum í mörgum sveitarfélögum úti um land, þar sem víða er lögð mikil áhersla á öflugt tónlistarlíf. Þegar þessir nemendur verða síðan að fara frá heimabyggðum sínum í framhaldsskóla til Reykjavíkur, Akureyrar eða annað, verður brot á tónlistarnámi þeirra vegna þess að þau eiga ekki sama aðgang að tónlistarnámi þar eins og í heimabyggð sinni. Ráðherrann segir: Bíðum og sjáum. Enn hefur samningurinn milli sveitarfélaganna og ríkisins varðandi kostnað við tónlistarnám í framhaldsskólunum ekki verið endurnýjaður, ekki frá síðustu áramótum. Börnin líða fyrir þetta, það er tónlistarnáminu sem blæðir og þó að hæstv. ráðherra og forustumenn sveitarfélaga geti verið að togast á um þessa peninga þá eru þetta í fyrsta lagi ekki háar upphæðir en í öðru lagi er þetta veruleg skerðing á réttindum þessa unga fólks (Forseti hringir.) og sérstaklega vil ég nefna ungt fólk utan af landi sem verður að fara heiman til náms, frú forseti.