132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Áhrif veiða á erfðagerð þorsksins.

184. mál
[14:14]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er satt að segja ekki viss um hvort ég bæti mikið umræðuna þó ég reyni að kveða upp úr um það hvor hafi betur í þessari umræðu, erfðafræðingar eða einhverjir aðrir. Ég held hins vegar að það blasi einfaldlega við það sem ég var að segja. Það er augljóst mál að við gengum of nærri þessum stærsta fiski í sókninni. Það er hins vegar fortíð. Núna erum við að reyna að stýra veiðunum og draga úr þessari sókn með ýmsum hætti.

Það er hins vegar algerlega hárrétt, sem hv. 2. þm. Norðvest. sagði áðan, að við megum ekki eingöngu einblína á netaveiðarnar. Netaveiðarnar hafa minnkað mjög mikið á undanförnum árum af ýmsum ástæðum og það er enginn vafi á því að nýjustu ákvarðanir okkar um það að draga úr hámarksmöskvastærð hafa líka þau áhrif að netaveiðarnar verða erfiðari. Það sjáum við m.a. allar tölur um.

Það er ekki rétt að það sé ekkert lát á sókn í stærsta fiskinn. Það hefur dregið úr því. Það sjáum við bara á tölum og það heyrum við líka á ummælum þeirra sem fylgjast með þessum málum frá degi til dags. Hins vegar þýðir það ekki að við eigum ekki að hyggja að öðrum málum, t.d. eins og fæðuframboðinu sem ég hygg að við ræðum á eftir. Þó að við reynum að hafa áhrif á sókn í stærsta fiskinn þýðir það ekki að við eigum ekkert að hyggja að fæðuframboðinu. Við þurfum að hafa í huga mjög fjölþætt atriði þegar við ræðum fiskveiðistjórnarmál, sóknarmynstrið, sóknargetuna, sóknarþungann, hvernig við göngum um auðlindina gagnvart smæsta fiskinum, hvernig við gerum það gagnvart stærri fiskinum og hvernig við tryggjum að fæðuframboðið sé sem stöðugast og jafnast þannig að fiskurinn hafi nægilegt að éta og viðhaldi sér þannig.