132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Starfsemi og hæfi stjórnenda Kauphallarinnar.

552. mál
[15:45]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég hef í sjálfu sér engu við það að bæta sem ég sagði hér áðan í ítarlegu svari mínu til hv. þingmanns. (JóhS: Var þetta svar búið til af stjórnarformanni Kauphallarinnar?) Hvers lags aðdróttanir eru þetta nú?

Eins og kom fram í svari mínu er aldrei hægt að fullyrða að það geti ekki átt sér stað einhverjir hagsmunaárekstrar, það er nú bara þannig í lífinu að slíkt getur komið upp og ekki bara þarna heldur miklu, miklu víðar.

Og eins og ég sagði þá fær Fjármálaeftirlitið aukið opinbert vald með tilskipunum Evrópusambandsins sem flyst að verulegu leyti frá Kauphöllinni til Fjármálaeftirltisins og það er hið lögbæra yfirvald, það er Fjármálaeftirlitið. Þetta er því að mínu mati ekki eins og hv. þingmaður vildi vera láta í máli sínu.

Hvað varðar danska og norska kauphöll eða kauphallir, þó að mér sé ekki nákvæmlega kunnugt um hverjir sitja þar í stjórnum, þá er a.m.k. ljóst að það er ekki á grundvelli laga sem þar eru ekki forstjórar fyrir fjármálafyrirtækjum, við höfum farið yfir það að hvorki Evrópusambandið né þau lönd sem við berum okkur helst saman við í sambandi við löggjöf okkar, sem eru nú ekki síst Norðurlöndin, hafa sett í lög ákvæði sem gera það ólöglegt að forstjórar fjármálafyrirtækja (JóhS: Má stjórn framselja valdheimildir sínar til forstjóra?) sitji í stjórn. Ég held því þess vegna fram að það sé ekkert óeðlilegt á ferðinni í (JóhS: Ég bið ráðherra að svara því.) sambandi við Kauphöllina — hæstv. forseti, ég held að ég hafi orðið enn þá — það er ekkert óeðlilegt í þessu sambandi, eins og fram hefur komið í máli mínu.