133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[16:07]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson segir að við séum samherjar í þessu máli. Að þeim orðum sögðum langar mig að spyrja hv. þingmann, ef við erum samherjar í þessu máli, af hverju hann kaus þá gegn tillögu Samfylkingarinnar um að fella vörugjöld af öllum matvælum. Ég veit ekki betur en hv. þingmaður hafi beinlínis ýtt á nei-hnappinn þegar hann stóð frammi fyrir því tækifæri að sýna hugsanlega vilja sinn í verki með því að lækka matarverð enn meira hér á landi, einmitt á þeim forsendum sem ég held að við séum sammála um að neyslustýringarrökin halda ekki vatni.

Hv. þingmaður minnist einnig á að vörugjöld á sykri og sætindum séu skilin eftir og það er fróðlegt að skoða það að þrátt fyrir að menn ætli að skilja það eftir blasir við að meira en helmingur vörugjaldanna er skilinn eftir þegar kemur að þeim upphæðum sem fara í ríkissjóð. Einnig hefur verið bent á að mörkin um hvað séu óhollar vörur og hvað ekki eru mjög óljós og jafnvel órökrétt og þess vegna væri langhreinlegast að afnema þessi gjöld að öllu leyti enda er þetta vondur skattur sem hefur uppsöfnunaráhrif og er mjög óhagstæður fyrir neytendur og flækir kerfið til muna. Mig langar endilega að nota þetta tækifæri og spyrja hann hreint út: Af hverju greiddi hv. þingmaður atkvæði gegn tillögum okkar um að lækka vörugjöld á öllum matvælum úr því að hann hafði tækifæri til annars fyrir örfáum vikum?