133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

íslenska táknmálið.

630. mál
[17:20]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir fær nú tækifæri til að mæla fyrir þessu þarfa máli í þriðja sinn. Hún hefur tvisvar mælt fyrir því áður, sem þingmaður Frjálslynda flokksins, en fær nú sem óháður þingmaður í lok kjörtímabilsins tækifæri til að mæla fyrir því á nýjan leik. Ég fagna því sérstaklega að það skyldi standa henni til boða nú þótt hún sé ekki lengur þingmaður Frjálslynda flokksins.

Það er málefnið sem skiptir máli, það að koma því áfram, og við í Frjálslynda flokknum styðjum þetta mál heils hugar. Við væntum þess að það fái góðan framgang og nú í lok þings verði þessu máli sýnd sú virðing í nefnd að fá afgreiðslu og fá að koma aftur inn til umræðu sem unnið mál frá nefnd til 2. umr., sem það hefur ekki fengið áður.

Nú er hátt í helmingur hv. þingmanna meðflutningsmenn að þessu máli. Ég vænti þess að þeir sem á vantar til að málið nái meirihlutasamþykki átti sig á því að hér er hreyft mjög þörfu réttindamáli sem hefur verið flutt oft áður og það er algjörlega ástæðulaust og raunar eðlileg krafa að þetta mál fái nú framgang til að komast inn í lagasafn íslenska ríkisins og að íslenska táknmálið verði gert jafnrétthátt og mál okkar sem getum talað íslenska tungu.

Sá hópur í þjóðfélaginu sem er hér að reyna að sækja rétt sinn á tvímælalausa kröfu til þess að við hin sem getum mælt á íslenska tungu leggjum allt okkar fram til að ná þessu máli í þann farveg sem hér er lagður til. Málið er vel unnið, því hefur verið markvisst fylgt eftir á undanförnum árum og það hefur hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir gert með okkar stuðningi í Frjálslynda flokknum meðan hún var þar innan dyra og sá stuðningur hefur ekki breyst af okkar hálfu þótt hún sé ekki lengur í Frjálslynda flokknum. Við hefðum viljað geta séð til þess að hún hefði getað mælt fyrir þessu máli á hverju einasta ári á kjörtímabilinu en fengum því ekki ráðið eftir að hv. þm. Gunnar Örlygsson gekk úr Frjálslynda flokknum. (Gripið fram í.) Það voru aðrir sem réðu því, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir. (ÖS: Skammaðu hann bara.) Menn bara taka til sín sem eiga ef þeir vilja, annars láta þeir kyrrt liggja. Þannig er nú málið komið og við í Frjálslynda flokknum höfum tekið hér upp annað mál sem snýr að réttindabaráttu heyrnarskertra og heyrnarlausra sem er textun á máli og mæltum fyrir því í vetur. Við vissum ekki hvort mál skipuðust þannig að hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir fengi að komast inn í þingsal en fögnum því sérstaklega að nú, í lok kjörtímabilsins, rétt fyrir alþingiskosningar, fáist að mæla fyrir þessu máli. Menn geta þá tekið það til umfjöllunar og þá kemur í ljós hvaða vilji er hjá ríkisstjórnarflokkunum til að klára þetta mál. Það hefur ekki staðið á stjórnarandstöðunni að styðja það.

Ég held að ég þurfi ekkert að hafa fleiri orð um þetta mál, því fylgir mjög góð greinargerð og síðan fylgir því sérstakt frumvarp, bandormur um viðurkenningu á ýmsum lögum sem snúa að réttindum íslenska táknmálsins. Ég lýsi einfaldlega yfir, eins og kemur fram þegar þingmannalistinn sem flytur málið er skoðaður, að allur þingflokkur Frjálslynda flokksins stendur að málinu og mun leggja því lið hvar sem hann getur núna við lok þings.