135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

410. mál
[11:37]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eitt sannfærist ég alltaf um þegar ég heyri hv. þm. Pétur H. Blöndal, talsmann Sjálfstæðisflokksins í tryggingamálum, tala. Það er að engin takmörk virðast vera fyrir því hve smátt þessi flokkur getur hugsað fyrir hönd þeirra sem minnst hafa handa í milli. Þar virðast engin takmörk.

Auðvitað skiptir það máli fyrir fátæka manneskju að fá 8 þús. eða 12 þús. eftir atvikum upp í hendurnar. En guð minn góður, hvað erum við að tala um? Við erum að tala um fólk á leigumarkaði sem borgar 120–130 þús. kr. fyrir þriggja herbergja íbúð á þéttbýlissvæðinu. Við erum að tala um þjóðfélag þar sem kostar 5–6 þús. kr. að fylla á bílinn. Í þessu útgjaldaumhverfi erum við að tala um tekjur sem eru agnarsmáar.

Það er alveg hárrétt, að það eru takmörk fyrir því hve mikla peninga við höfum handa í milli sem samfélag. Þess vegna veltur á að ráðstafa þeim skynsamlega og á réttlátan máta. Við vorum að fá fréttir hér af því hvernig ríkisstjórnin skipar nýja sendiherra, setur á fót nýja varnarmálastofnun sem á að kosta á annan milljarð á ári — bara fyrsta árið, vegna þess að það eru útgjöld sem eiga eftir að aukast verulega. Við erum með ríkisstjórn í landinu sem efnir til heræfinga á landinu næsta vor og sumar með ærnum kostnaði.

Ég er tilbúinn að ræða þetta við hv. þm. Pétur H. Blöndal, hvernig eigi að forgangsraða fjármunum. Þá get ég sagt honum að Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill forgangsraða krónunum í vasana hjá þessu fólki. (Forseti hringir.)