136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

uppbygging álvers í Helguvík.

293. mál
[15:03]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur verið afdráttarlaus með það að halda áfram með framkvæmdir í Helguvík. Álver mun rísa í Helguvík, þær framkvæmdir eru komnar vel af stað. Það fer að verða ár frá því að við tókum þar fyrstu skóflustungurnar. Það var í maílok í fyrra og hefur gengið nokkuð vel. Þrátt fyrir efnahagsáföll og þá vinnu Norðuráls og Sviss Aluminium að leita nýrra fjármögnunaraðila að verkefnum hefur það samt gengið eftir og gengið vel. Fyrir utan hvað okkur finnst um einstakar greinar orkunýtingar þá er ljóst að það kemur eins og himnasending inn í íslenskt athafnalíf og þjóðlíf að þessar framkvæmdir fara af stað síðar á árinu. Talið er að um 3.000 manns muni vinna að þessum framkvæmdum með einum eða öðrum hætti þegar líður á árið. Það mun taka mikið af þeim slaka sem myndast í mannvirkjageiranum og því áfalli í þjónustu í mannvirkjageiranum sem þar er uppi núna. Það er mikið fagnaðarefni og það er afdráttarlaust að þau áform er ekki verið að stöðva.